Jóhanna Ösp Einarsdóttir, fráfarandi formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga rifjaði upp í setningarræðu sinni á Fjórðungsþinginu sem stendur yfir á Laugarhóli í Bjarnarfirði þau mál sem efst voru á baugi þegar sambandið var stofnað 1949 eða fyrir 75 árum.
„Í nóvember verður Fjórðungssamband Vestfirðinga 75 ára! Og ég held við eigum aðeins og staldra við og taka forskot á sæluna og klappa fyrir afmælisbarninu (því hver veit hvað kemur í kjölfarið á þessu þingi….mörg erfið mál á dagskrá…). En á fjórðungsþingi fyrir 75 árum var rætt:
- Landhelgi Íslands (og við erum með ályktun um landamæraeftirlit)
- Samgöngur (nokkrar ályktanir um samgöngur)
- Fjarskipti (ályktun um farnet tetra)
- Orkumál (ályktun um glálmaströnd)
- Og menntaskóla á Ísafirði, ég veit ekki hvort þið munið eftir öllum tölvupóstunum á þessu ári í kringum verknámshús.
Þannig að við erum ennþá í svipuðum dúr og þá, og verðum sennilega að því líka árið 2060 og kannski er það allt í lagi. En við erum að fara að tala um orkumál og samgöngur í svæðisskipulaginu“.
Nefndi hún sem dæmi um mál sem biði þingsins að taka afstöðu til væri jarðgöng og virkjun svo sem Álftafjarðargöng eða Suðurfjarðagöng og virkjun í Vatnsdal.
Þá sagði Jóhanna í ræðu sinni: „auðvitað er fáránlegt að það eru engin göng í gangi akkurat núna, auðvitað er fáránlegt að það sé leki á fjármagni sem átti að fara í samgöngur á Vestfjörðum en fóru í Hornafjarðarfljót og svo allt í einu eru Fljótagöng komin í einhverja flýtimeðferð. Það er svo ferlegt að geta bara ekki treyst á að ríkið þjónusti okkur og fáránlegt að það sé verið að bora færri kílómetra á ári sem voru 0 kílómeter á ári undanfarin 4 ár. Ég hefði líka alveg glöð tekið við þessum milljörðum sem fóru í Hornafjarðarfljótið. En fyrst þessi staða er uppi og það virðist ekki vera sjáanleg lausn þá þurfum við að koma okkur að einhverri niðurstöðu og við verðum að fara fram á að rannsóknir hefjist strax. Þannig að ekki vera hrædd við að ræða málin og takast á.“
Vandinn væri að ekki væri við því að búast að unnið væri að öllum verkefnum í senn og þau sem ekki væri fyrst myndi líklega bíða í áratugi. Hins vegar væri það líka réttmætt að benda á hvað það kostaði samfélögin að bíða kannski í 20 ár. Hvernig væri hægt að leysa úr þessum vanda spurði Jóhanna Ösp. Það væri verkefnið að finna lausnirnar.