Ísafjörður: misjafn undirbúningur 17. júní hátíðahalda

Fram kemur í minnisblaði upplýsingafulltrúa Ísafjarðarbæjar um gang hátíðahalda á 17. júní 2024 á Ísafirði að skipulag hafi gengið nokkuð vel en að undirbúningi var að sumi leyti áfátt.

Annað árið í röð var boðið upp á barnaskemmtun Kómedíuleikhússins og andlitsmálun á Eyri áður en hátíðahöldin hófust á sjúkrahústúninu. Ánægja virðist vera með þetta fyrirkomulag og lagt er til að því verði haldið áfram. Hins vegar týndist andlitsmálningin enn einu sinni og fannst fyrir tilviljun inni í íþróttahúsi.

Hestar voru í boði fyrir börn á hátíðahöldunum eftir nokkurt hlé og var mikil ánægja með það.

Fánaberar hafa oftast komið úr röðum skátafélagsins sem nú er ekki lengur starfandi. Síðustu ár hefur verið leitað til nýstúdenta og björgunarsveitarfólks til að bera fána en illa gekk að finna fánabera í ár. Úr varð að þjóðbúningaklæddar kvenfélagskonur úr Hvöt tóku að sér að bera fánana að þessu sinni en því var reddað samdægurs. Best væri að finna einhvern félagsskap sem væri til í að taka þetta að sér til frambúðar segir í minnisblaðinu.

Tjöldin voru í slæmu ástandi. Beiðni um flutning á tjöldum kom of seint til áhaldahússins, daginn fyrir 17. júní, sem var sunnudagur.

Rafmagn á túninu var í einhverju ólagi og tók það körfuna nokkurn tíma að koma því í lag á 17. júní, sem tafði undirbúning sölu.

Nauðsynlegt er að tryggja að salernisaðstaða sé á hátíðarsvæði. Einfaldast er að hafa opið inn í Safnahús en þá þarf að óska eftir því með góðum fyrirvara og setja upp merkingar um að það sé opið að aftan á meðan formleg dagskrá fer fram framan við húsið.

Lagt er til að flagga á fánastöngum við Stjórnsýsluhúsið, Silfurtorgsmegin til að auka á hátíðleikann.

Reynt var að endurvekja kassabílarallí en engin þátttaka var í keppninni.

DEILA