Karlalið Vestra í Bestudeildinni vann gríðarlega mikilvægan sigur á HK á Kerecis vellinum á Ísafirði í gær. Með sigrinum komst Vestri upp úr fallsæti og setti HK í það í staðinn.
Leikurinn bar þess merki að liðin áttu mikið undir úrslitunum. Jafnt var í hálfleik og markalaust. HK tók forystuna í upphafi seinni hálfleiks en Vestramenn tókst að setja meiri kraft í sin leik. Jeppe Pedersen jafnaði leikinn með miklu glæsimarki og skömmu fyrir leikslok skoraði markahrókurinn Andri Rúnar Bjarnason sigurmark leiksins.
Nú eru eftir 3 leikir í keppni sex liða í neðri hluta Bestudeildarinnar um að forðast fall úr deildinni. Tvö neðstu liðin falla í Lengjudeildina. Staðan er þannig að KA er sloppið við fall eftir sigur á Fylki í gærkvöldi og Fram má segja að sé það líka, þótt fræðilega séð geti liðið enn fallið.
Liðin fjögur sem berjast við falldrauginn eru því KR, Vestri, HK og Fylkir. Framundan eru tveir útileikir hjá Vestra, fyrst við Fram og svo KA og lokaleikurinn verður á Ísafirði gegn Fylki.
Það getur unnið með Vestra að bæði Fram og KA þurfa ekki að hafa áhyggjur af falli úr deildinni og sem dæmi þá steinlá Fram 7:1 gegn KR í gær.
En Vestri er aðeins einu stigi fyrir ofan fallsæti og verður að sína þrjá góða leiki nú í lok mótsins Liðið á góða möguleika á að halda sér uppi í Bestu deildinni.
Staðan eftir leiki gærdagsins. Vestri er í 10. sæti eða 4. sæti neðri hluta deildarinnar eftir 24 umferðir af 27.