Hafin er keppnin í Bestu deildinni um það hvaða tvö lið falla úr deildinni. Sex lið sem enduðu í neðri hluta deildarinnar keppa innbyrðis um áframhaldandi sæti í deildinni. Fjögur lið munu forðast fall en tvö neðstu liðin munu leika í lengjudeildinni á næsta ári.
Einni umferð er lokið og næsta umferð verður um helgina. Þá kemur HK frá Kópavogi í heimsókn á sunnudaginn á Kerecis völlinn á Torfnesi á Ísafirði og leikur við Vestra.
Um er að ræða mjög mikilvægan leik fyrir Vestra. Liðið er í 11. sæti deildarinnar og kemst upp úr fallsæti ef Vestri vinnur HK.
Neðsta liðið er Fylkir og Vestri fær Fylkismenn í heimsókn vestur í síðasta leiknum á heimavelli þann 26. október. Í millitíðinni verða tveir leikir Vestra á útivelli, annars vegar gegn Fram og hins vegar KA frá Akureyri.