Stefán Vagn Stefánsson, alþm og fyrsti flutningsmaður að þingsályktunartillögu, sem 15 þingmenn flytja, um Tröllskagagöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar segir að hugmyndin sé sú að göng undir Tröllaskaga komi í stað fyrir göng undir Öxnadalsheiði. „Markmiðið er að tengja betur saman Norðurland vestra og Norðurland eystra, stytta leiðina frá Blönduósi og Sauðárkrók til Akureyrar. Með þessu móti geta íbúar á NV landi nýtt betur þá þjónustu sem þar er s.s. heilbrigðisþjónustu og aðgengi að Háskólanum á Akureyri.“
Öxnadalsgöng eru 10. í röðinni á forgangsröðun yfir næstu jarðgöng á landinu og telja flutningsmenn mjög mikilvægt að göng um Öxnadalsheiði fari ofar á forgangslista samgönguáætlunarinnar.
Tillagan var einnig flutt á síðasta þingi. Í umsögn Vegagerðarinnar þá segir að jarðgöng milli Hjaltadals og Hörgárdals undir Hjaltadalsheiði yrðu um 18 km eða 22 km löng með gangamunnum í 300-350 m hæð yfir sjávarmáli.
Jarðgöng frá Kolbeinsdal til Skíðadals yrðu tvenn göng sem eru hvor um 13 km löng með gangamunnum í um 300 m hæð yfir sjávarmáli.
Jarðgöng undir Heljardalsheiði er um 11 km löng með gangamunnum í um 220-240 m y.s. Þau göng stytta ekki Leið milli Skagafjarðar og Akureyrar en stytta hins vegar Leið mili Skagafjarðar og Dalvíkur.
Vegagerðin gerir ráð fyrir að jarðgöng í gegnum Öxnadalsheiði yrðu 11 km löng.