Strandabyggð : mótmælir harðlega 90% skerðingu lottótekna

Árný Helga Birkisdóttur, íþróttamaður HSS, og Jökll Ingimundur Hlynsson, efnilegasti íþróttamaður HSS

Sveitarstjórn Strandabyggðar ræddi á síðasta fundi sínum erindi frá Hérðssambandi Strandamanna, HSS, þar sem greint er frá breytingu á fyrirkomulagi á skiptingu lottótekna milli íþróttafélaga. með breytingunum verður grundvelli kippt undan starfsemi Héraðssambands Strandamanna. Niðurskurðurinn er úr 5 milljónum kr. í um 500 þúsund kr. að því er fram kemur í fundargerð.  Slík skerðing er rothögg við alla starfsemi HSS og verður þess valdandi að ekki verður hægt að halda úti stöðu framkvæmdastjóra segir þar ennfremur.

Bókað var að „Sveitarstjórn Strandabyggðar mótmælir harðlega þeirri aðför sem hér er gerð að íþróttastarfi í Strandabyggð og um land allt og varar við afleiðingum þess á forvarnarstarf, lýðheilsu og andlega heilsu ungmenna og allra þeirra sem stunda íþróttir og eiga mikið undir öflugu starfi félaga og samtaka.“

Sveitarstjóra Strandabyggðar var falið að óska eftir fundi með fulltrúum ÍSÍ og UMFÍ og koma þar mótmælum sveitarstjórnarinnar á framfæri og auk þess að senda bókunina á viðeigandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands.

DEILA