Staðreyndir málsins

Það er vert að  þakka Óðni Gestssyni fyrir ágæt svör við grein minni „Manngerðar hörmungar á Flateyri“ en honum líkt og okkur í Flokki fólksins er í mun að tryggja framtíð sjávarbyggðanna.

Ég vil taka það fram áður en lengra er haldið að ég hef fullan skilning á því að hann reyni að verja úthlutun sem kemur að stórum hluta til fyrirtækja hans sjálfs. Engu að síður er rétt að undirstrika að ef ekki verður róttæk breytingar á úthlutun Byggðastofnunar þá stefnir í heimildirnar fari sömu leið og rækju- og skelbæturnar þ.e. samningar Byggðastofnunar um aflaheimildir fari að ganga kaupum og sölu  

Nokkrar staðreyndir 

1) Flateyri hefur notið 900 tonna byggðakvóta árlega sl. ár, sem eru verðmæti sem meta má á allt að hálfan milljarð króna árlega.  

2) Ekki er einum sporði er af byggðakvótanum landað á Flateyri. 

3) Ekkert af aflanum fer til vinnslu á Flateyri. 

4) Ofangreint er réttlætt með því að þeir sem þiggja verðmætin hafi komið upp vinnslu á aukafurðum dýra að mest úr sauðfjárafurðum þ.e. þurrkuð lambahorn og síðan á roði til fóðurframleiðslu..

5) Ekki hefur verið gert upp við frumkvöðulinn Hönnu Þrúði Þórðardóttur sem var aflsvaki vinnslunnar á Flateyri.

Jafnræðið

Það er ekkert sem bendir til þess að öðrum útgerðarmönnum á Vestfjörðum standi til boða að veiða umræddan byggðakvóta en þeim sem fá honum úthlutað aðallega á grundvelli vinnslu á landbúnaðarafurðum! Efast má um að úthlutunin sé í samræmi við lög um stjórn fiskveiða en svo togaðar og teygðar eru forsendurnar að þær rúmast vart innan 8. og 10 gr. laganna.

Það er ekkert sem bendir til þess að öðrum atvinnurekendum á Flateyri t.d. líflega skemmtistaðnum Vagninum standi til boða einhver skerfur af gæðunum. Allir sem fá hundruð milljóna króna árleg í meðgjöf geta bætt við sig fólki. Tilgangur byggðakvóta er að styrkja útgerð á svæðinu, en ekki óskylda starfsemi.

Hvað vill Flokkur fólksins?

Í fyrsta lagi þá þarf að gangast við því augljósa þ.e. að núverandi stjórnun hefur algerlega brugðist og ekki aðeins sjávarþorpunum, en afli í nánast hverri og einni einustu fisktegund sem hefur verið sett í kvóta er mun minni en áður.

Flokkur fólksins vill auka frelsi til veiða en ekki er nokkur lifandi leið að ofveiða fiskistofna með handfærum og því er rétt að gefa þær veiðar frjálsar.

  1. Koma  á löndunarskyldu á byggðakvóta í brothættu byggðunum.
  1. Allur fiskur taki verð á frjálsum markaði, þó þannig að 20% af andvirðinu renni til uppbyggingarsjóðs í viðkomandi byggðarlagi.    

Með þessu er stuðlað að jafnræði íbúa og þeim sem vilja gera út í brothættri byggð. Í stað þess að byggðakvótinn renni í heilu lagi til aðila með sterka samningsstöðu sem jafnvel eru ekki með neinar tengingar við byggðina. 

  1. Fiskvinnslur í viðkomandi sveitarfélagi hafi forgang að aflanum á 15% afslætti af meðalverði á markaði, en þá færi aðeins 5% til uppbyggingarsjóðs í byggðarlaginu.   

Með þessu er búinn til raunverulegur hvati til þess að byggja upp arðsaman atvinnurekstur og komist hjá því að verið sé að setja upp hálfgerða leikmynd til þess að fá gríðarleg verðmæti í formi byggðakvótans.

  1. Skipting á milli báta í hverju byggðarlagi verði þannig að helmingur veiðiheimilda skiptist jafnt á milli báta og hinum helmingnum yrði úthlutað í samræmi við landaðan afla á síðasta ári, en jafnframt yrði gerð krafa um að meirihluti áhafnarmeðlima verði með lögheimili í sjávarbyggðinni.

Eins og að fyrr greinir þá erum við Óðinn sammála um markmiðið þ.e. að efla og treysta öflugan sjávarútveg hringinn í kringum landið.

Sigurjón Þórðarson

varaþingmaður Flokks fólksins

DEILA