Kræklingarækt hefur verið reynd hér við land en átt erfitt uppdráttar. Áhugi stjórnvalda hefur verið dræmur og lýsir sér best í hvað regluverk um ræktun af þessu tagi hefur verið veikburða og ófullnægjandi. Víða um heim er slík ræktun í blóma og það er ekkert sem segir að það sama geti átt við á Íslandi, en umgjörð stjórnvalda þarf að styðja við framleiðsluna svo að hægt sé að tryggja hámarksábata til framleiðenda og samfélagsins.. Náttúran er ekki til fyrirstöðu, en sjórinn við Ísland er mjög frjósamur og getur vaxtahraði kræklings hér við land verið álíka og það sem þekkist í Evrópu.
Kræklingur
Kræklingaræktun er lífræn og umhverfisvæn starfsemi. Engin fóðrun á sér stað og ekki eru notuð nein efni við ræktunina. Aðeins búnaðurinn sjálfur hefur áhrif á umhverfið en öll framkvæmdin er afturkræf og sjónræn áhrif hennar eru haldin í lágmarki. Þó þarf að hafa varann á þar sem ræktun í of miklum mæli getur haft neikvæð áhrif á þörunga, enda nærast skeldýr á þeim.
Undirrituð óskaði eftir skýrslu frá matvælaráðherra á vordögum um skeldýrarækt, umfang hennar frá árinu 2011 og samanburð á starfsumhverfi og samkeppnishæfni við önnur Evrópulönd. Skýrslan var birt í byrjun þessa mánaðar.
Ræktun og veiðar skeldýra eru einungis heimilar á ræktunarsvæðum sem Matvælastofnun hefur viðkennt á grundvelli heilnæmiskannana. Á útgefnum leyfum má sjá að framleiðsla hefur farið fram í fjörðum víða um land, að undanskildu Suðurlandinu.
Lög og reglur
Um ræktun á skeldýrarækt gilda lög nr. 90/2011 og voru það fyrstu heildarlögin á Íslandi um skeldýrarækt. Samkvæmt mati matvælaráðuneytisins er erfitt að meta áhrif lagasetningunnar á ræktun á kræklingi á Íslandi, en fyrstu árin eftir lagasetninguna jókst ræktun hér við land allt til ársins 2018. Þá fór að halla undir fæti.
Nokkur vinna hefur farið fram í undirbúningi að setningu reglugerðar um skeldýrarækt með stoð í áðurnefndum lögum en meðgangan hefur tekið á og engin afurð litið dagsins ljós né er hún í sjónmáli.
Samanburður á starfsumhverfi
Hér á landi fellur allur kostnaður við sýnatökur og greiningar á þann ræktanda sem hyggst setja krækling á markað. Er það í samræmi við framleiðslu matvæla almennt. En þegar er litið á umfang kræklingaræktunar hér við land verður þetta að segja að kröfurnar eru umtalsverðar. Því almennt vantar mikið upp á rannsóknir og stefnu stjórnvalda varðandi þessa starfsemi. Það hefur letjandi áhrif og vinnur gegn framþróun í starfsgeiranum. Í sumum löndum Evrópu hafa stjórnvöld ákveðið að standa alfarið straum af kostnaði við eftirlit og vöktun á ræktunarsvæði kræklings. Þarna ráða hagsmunir um almannaheill, þar sem sýkingar og eitrun geta komið upp og skiptir því miklu máli að heilnæmi vörunnar skili sér til neytenda. Það á að vera stefna stjórnvalda að styðja við frumkvöðla á þessu sviði hér við land, því sú ræktun sem farið hefur fram hér er enn að slíta barnsskónum og ræktun hvers fyrirtækis er í smáum stíl. Ávinningur að rannsóknum, eftirliti og vöktun fyrir ríkið er mikill m.a. þar sem mikilvægt er að byggja undir stefnu og regluverk um greinina til framtíðar.
Byggðamál
Uppbygging atvinnu um allt land skiptir máli. Það skiptir líka máli að byggt sé undir fjölbreytni og sjálfbæra nýting auðlinda. Það er staðreynd að þessi starfsemi getur þrifist á þeim svæðum þar sem byggðir hafa farið halloka í atvinnumálum og getur því reynst mikilvæg hvað varðar styrkingu byggða um landið.
Matvælaráðherra hefur þegar sett á stað stefnumótun er varðar skeldýrarækt og er hún hluti af stærri stefnumótun um nýtingu þangs og þara. Það er ánægjulegt að sjá aukin áhuga stjórnvalda á málaflokknum. En það er ljóst að hraða þurfi setningu regluverks í kringum greinina. Það hefur nú þegar farið fram vinna í þeim undirbúningi og greinin kallar sterkt eftir föstum grunni til að byggja sína starfsemi á. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að kræklingarækt þróist og vaxi, enda höfum við aflað mikillar þekkingar í þessum efnum á undanförnum árum og hún má ekki tapast.
Halla Signý Kristjánsdóttir
þingmaður Framsóknar