Samstarf um innviðauppbyggingu á Vestfjörðum

Frá undirskrift samstarfssamningsins. Frá vinstri: Guðlaugur Þór Þórðarson, Þorsteinn Másson, Guðmundur Fertram Sigurjónsson og Gauti Geirsson.

Í dag var undirritaður samstarfssamningur milli Bláma og Innviðafélags Vestfjarða um uppbyggingu innviða. Það voru Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis–, orku- og loftslagsráðherra, Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis og Þorsteinn Másson, framkvæmdastjóri Bláma sem undirrituðu samninginn í húsakynnum Vestfjarðastofu á Ísafirði.

Við það tækifæri sagði ráðherrann að innviðaátakið ynni einnig að hagkvæmari nýtingu orku og stuðlaði að orkuskiptum. Góðar samgöngur a Vestfjörðum myndu draga úr orkunotkun og væru þjóðhagslegar hagkvæmar. Það væri því greinileg samlegðaráhrif af samstarfi Bláma og Innviðafélagsins.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerrecis og talsmaður Innviðafélags Vestfjarða sagði að síðustu 7 ár hefðu tekjur atvinnufyrirtækja á Vestfjörðum þrefaldast og þar væri efnahagsávintýri í gangi. Þessi vöxtur hefði orðið þrátt fyrir slaka innviði, þá lökustu á landinu. Til þess að halda áfram þessum vexti þyrfti stórátak í uppbyggingu innviða á Vestfjörðum. Þjóðin þyrfti t.d. auknar tekjur frá atvinnulífinu til þess að starnda undir útgjöldum í heilbrigðiskerfinu. Betri innviði þyrfti því til þess að gera það mögulegt.

Að Innviðafélagi Vestfjarða standa fyrirtæki á Vestfjörðum sem eru með árlegar tekjur milljarð króna eða meira.

Þorsteinn Másson, framkvæmdastjóri Bláma sagði við Bæjarins besta að Blámi myndi leggja til þekkingu svo sem við útreikninga á áhrifum einstakra innviðaframkvæmda á orkuskipti og sparnað á orku. Hjá Bláma eru starfandi tveir verkfræðingar auk Þorsteins.

Kynningarfundurinn var vel sóttur. Hér sjást nokkrir fundarmenn.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA