Ný störf á Vestfjörðum í íþróttahreyfingunni

Guðbjörg Ebba og Birna Friðbjört.

Mennta- og barnamálaráðuneytið setti fram stefnumótun í íþróttamálum til ársins 2030 þar sem markmið voru meðal annars að efla starfsemi og skipulag íþróttahreyfingarinnar.​ ÍSÍ og UMFÍ skrifuðu svo undir samning við ráðuneytið í lok árs 2023 þar sem fjármagn var fengið til að setja á laggirnar 8 svæðisstöðvar um land allt. ​Skipulag íþróttahéraða er lykilhluti af svarinu við því hvernig íþróttahreyfingin getur náð markmiðum um að vera skilvirk og samræmd hreyfing í takt við kröfur nútímans. Svæðisstöðvunum er ætlað að styðja við íþróttahéruð landsins við að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi með sérstaka áherslu á: Þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og  barna af erlendum uppruna. Með þessu fyrirkomulagi má ná markmiðum sem stjórnvöld hafa sett með lögum um farsæld barna, íþróttalögum, íþróttastefnu ríkisins ásamt byggðaáætlun stjórnvalda.

Markmið svæðisstöðvanna er:

  • Efla íþróttastarf á landsvísu með því að þjónusta íþróttahéruð á viðkomandi svæðum og félög innan þeirra með samræmdum hætti.
  • Nýta mannauð betur, auka stuðning við einstaka íþróttafélög og bæta þjónusta til iðkenda.
  • Að sem flestir hafi tækifæri til að stunda íþróttir á því sviði sem þeir kjósa, hvort heldur til ánægju, heilsubótar eða með afreksárangur að markmiði.

Tvö störf á Vestfjörðum

Í Vestfjarðateyminu starfa saman Guðbjörg Ebba Högnadóttir, staðsett í húsnæði Regus á Ísafirði og Birna Friðbjört S. Hannesdóttir, staðsett í Ólafshúsi á Patreksfirði. Netföngin þeirra eru ebba@siu.is og birna@siu.is og eru áhugasamir um íþróttastarf að hafa samband við svæðisfulltrúana sem aðstoða eða leiðbeina um allt er varðar íþróttastarf. 

DEILA