Ríkisútvarpið fór út fyrir sanndindarammann í gær í fréttaflutningi sínum um strok seiða úr landeldisstöð Háafells á Nauteyri. Í frétt RUV segir að „Allt að 150 laxaseiði fóru í sjóinn þegar óhapp varð við dælingu milli húsa Háafells að Nauteyri við Ísafjarðardjúp.“
Þetta rímar ekki við fréttatilkynningu Matvælastofnunar af atburðinum. Þar segir að „er ekki hægt að útiloka að um 150 seiði muni hafa komist í sjó“.
Þetta er fjarri því að vera það sama. Mast segir að mögulega hafi komist seiði í sjó en RUV fullyrðir að seiði hafi farið í sjó. Matvælastofnunin er eftirlitsstofnunin og hefur fengið upplýsingar um óhappið frá eldisfyrirtækinu og rannsakað málið. Það hefur RUV ekki gert. En það er meira krassandi að halda því fram að seiðin allt að 150 hafi farið í sjóinn. En vandi RUV er að það er ekki sannleikanum samkvæmt, með öðrum orðum skapandi fréttaskrif hjá fréttamanninum Rebekku Líf Ingadóttur, sem hún hefur ekki leiðrétt.
Við dælingu á seiðum milli húsa á Nauteyri var krani á drenlögn ekki að fullu lokaður. Fiskur komst út um opinn kranann og ofan í fjöru.
Fyrirtækið virkjaði strax viðbragðsáætlun vegna stroks og setti út net. Starfsfólk Háafells náði að tína upp seiði sem voru eftir í drenlögninni og seiði sem sprikluðu í fjöruborðinu. Um 50 seiði náðust að auki í net. Alls náði starfsfólk Háafells 2.560 seiðum.
Síðan er borið saman við seiðabókhaldið þar sem skráð eru fjöldi seiða inn og út. Niðurstaðan er að ekki er hægt að útiloka að um 150 seiði muni hafa komist í sjó fram samkvæmt lífmassabókhaldi fyrirtækisins.
Það þýðir að ekki fundust nein seiði í sjó, né sást að nein seiði hefðu farið í sjó. Munurinn 150 seiði gæti verið vegna þess að seiði hafi komist í sjó, en skýringin gæti líka verið að seiðin hafi tapast fyrr í ferlinu, jafnvel að þau hafi aldrei verið sett í landstöðina. Það er einfaldlega ekki vitað.
Fullyrðing RUV þess efnis að seiðin hafi farið í sjó er ekki byggð á staðreyndum. Ríkisútvarpið er að setja fram fullyrðingu sem það hefur ekki fært rök fyrir.
Síðan hefði farið vel á því að RUV upplýsti um mögulegan skaða ef svo hafi farið. Það var ekki gert. Það er til dæmis hægt að fræðast um það með því að lesa greinargerð Hafrannsóknarstofnunar um áhættumat af erfðablöndun villts lax og eldislax. Þar kemur skýrt fram að lífslíkur síðbúinna strokufiska, eins og þessi smáu seiði eru, eru afar litlar, mætti jafnvel segja hverfandi. Svo má lesa líka að blöndun milli villts lax og eldislax þurfi að vera í miklum mæli og í langan tíma í árum talið til þess að hafa áhrif á samsetningu hrygningarstofns á villtum laxi – og ennfremur að þegar tekur fyrir blöndunina þá gangi blöndunin til baka og villti stofninn haldi örugglega velli.
150 lítil seiði er einn atburður og hefur engin áhrif, jafnvel þótt seiðin hafi komist í sjó – sem ekki er vitað.
En álit vísindamanna um nánast skaðleysi af atburðinum er líklega ekki jafn spennandi frétt.
-k