Misfarið með byggðakvóta

Hér er einn angi af árangri úthlutunar á byggðakvóta Byggðastofnunar og almenna byggðakvótans þ.e. til Flateyrar.  Það sem er stórmerkilegt er Ríkisendurskoðun hefur nýlega fjallað um úthlutun á byggðakvóta . Það er ljóst að finna má nokkur hliðstæð dæmi um hvernig misfarið er með þessi gæði og nokkuð ljóst að þeir sem fá þau frá Byggðastofnun hafa greiðari leið inn í stjórnkerfið en aðrir. 

Hringavitleysan á Flateyri

Flateyri er því miður ekki einsdæmi um brothætta byggð sem fær úthlutað veiðiheimildum sem ekki er landað í viðkomandi sjávarbyggð, heldur er aflanum landað jafnvel í öðrum landsfjórðungi https://www.visir.is/g/20242620624d/manngerdar-hormungar-a-flateyri

Á FB-síðunni Flateyri og Flateyringar er stutt grein eftir Þorgils Þorgilsson, sem rekið hefur löndunarþjónustu í þorpinu. Hann greinir skilmerkilega frá því að hann sé að hætta þeirri þjónustu vegna þess að það skilar sér ekki einn sporður á land á Flateyri af þeim 500 tonnum sem þorpið fær úthlutað frá Byggðastofnun og það sama á við um þau 400 tonn sem koma í hlut Flateyrar á grundvelli almenna byggðakvótans.

Hafa ber í huga að hér er verið að úthluta aðilum verðmætum sem meta má allt að hálfum milljarði árlega á grundvelli eflingu sjávarútvegs á Flateyri, án þess það sé nokkur lifandi leið að átta sig á því hvernig það nýtist byggðinni.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar er fyrst og fremst bergmál innan úr kerfinu þ.e. þeirra sem staðið hafa að núverandi úthlutun og þeirra sem héldu á penna við gerð skýrslu Auðlindarinnar okkar, en tekur ekki tillit til gagnrýni sem komið hefur utan kerfisins, þrátt fyrir að um sé að ræða skýra og vel rökstudda gagnrýni.

Ríkisendurskoðun fjallar ekki um þann þátt málsins sem gagnrýndur hefur verið m.a. á Alþingi að byggðakvótar sem nefndir hafa verið félagsleg úrræði til að bregst við áhrifum samþjöppunar, renna að stórum hluta til stórútgerðarinnar og jafnvel til útgerða sem komnar eru upp fyrir lögbundið kvótaþak.

Ríkisendurskoðun fjallaði ekki um þann þátt sem snýr að félagslegum undirboðum í þeim þorpum sem byggðakvóta Byggðastofnunar hefur verið ætlað að styrkja. Þeir sem hafa fengið samning frá Byggðastofnun hafa í framhaldinu gert verktakasamninga við litlar útgerðir í þorpunum sem teljast ekkert annað en félagsleg undirboð.

Mörg dæmi eru um að handhafi samnings í brothættri byggð búi ekki í plássinu og sé komin í forréttinda og yfirburðastöðu gagnvart þeim sem stunda útgerð í byggðinni.

Með þetta dæmi fyrir framan sig um meðferð á bæði almenna og sértæka byggðakvótans fyrir  Flateyri og víðar, þá hlýtur Ríkisendurskoðun að íhuga að endurvinna fyrri skýrslu og a.m.k. fjalla um þá gagnrýni sem komið hefur fram m.a. á Alþingi. 

Sigurjón Þórðarson

varaþingmaður Flokks fólksins.

DEILA