Þegar Alþingi afgreiddi núverandi samgönguáætlun í júnímánuði 2020 sendi meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar frá sér ítarlegt álit. Þar var sett fram það álit að unnin verði heildstæð greining á jarðgangakostum á Íslandi. „Valkostir á einstaka leiðum verði þar metnir með tilliti til fýsileika, kostnaðar og félagshagfræðilegs ábata. Á grunni þeirrar greiningar verði jarðgangakostum forgangsraðað til lengri tíma.“
Meirihlutinn benti sérstaklega á 10 kosti og af þeim voru 5 á Vestfjörðum. Ein þeirra var breikkun Vestfjarðaganga.
Í framhaldinu fór af stað vinna við ofangreinda heildstæða greiningu. Fjórðungssamband Vestfirðinga hafði snemma árs fengið Hrein Haraldsson, fyrrverandi Vegamálastjóra til aðstoðar við gerð samgöngu- og jarðgangaáætlunar fyrir Vestfirði og skilaði hann af sér skýrslu í apríl 2021.
Hreinn talar aðeins um breikkun á Breiðadalslegg ganga undir Breiðadals- og Botnsheiði og segir hana muni verða aðkallandi þegar umferð hefur náð tilteknum mörkum, sem búast megi við að verði á næstu tveim áratugum eða svo. „Segja má að þessi aðgerð sé eingöngu öryggisráðstöfun sem líta ætti á eins og endurbyggingu almennra vega og breikkun brúa sem ná tilteknum mörkum í umferð, og hún ætti því tæplega að fara inn í hefðbundna forgangsröðun nýrra jarðganga.“
Þetta er ekki uppörvandi mat og spurning hvort öryggisþátturinn sé virtur eins og skyldi sérstaklega eftir eldsvoðann í Tungudal nýlega.
Í janúar 2022 lætur Fjórðungssamband Vestfirðinga KPMG vinna samfélagsgreiningufyrir jarðgöng á Vestfjörðum. Þar er aðeins metnir tveir kostir, annars vegar göng um Hálfdán og Mikladal á sunnanverðum Vestfjörðum og hins vegar á milli Ísafjarðar og Súðavíkur (Súðavíkurhlíð) á norðanverðum
Vestfjörðum. KPMG segir þó: „Aðrir jarðgangakostir eru þó vissulega til staðar á svæðinu s.s. undir Klettsháls, tvöföldun Breiðadalsleggs Vestfjarðaganga og fl.“
Það er athyglisvert að KPMG nefnir aðeins breikkun Breiðadalslegg ganganna en ekki breikkun á Súgandafjarðarleggnum. En einnig er sláandi að breikkun einbreiðra jarðganga er greinilega sett til hliðar.
Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri er fengið til þess að gera mat á arðsemi, umferðaröryggi, tengingu svæða og byggðaþróun fyrir jarðgöng á áætlun. Því er skilað í maí 2023 og þar er aðeins breikkun á Breiðaldalslegg Vestfjarðaganga tekin til skoðunar. Breikkun á einbreiðum hluta Vestfjarðaganga til Súgandafjarðar er ekki lengur til athugunar. Vegagerðin skilaði svo forgangsröðun í framhaldinu í júní 2023 og þar er sama upp á tengingnum.
Það er ekki annað að sjá en að það hafi verið Vestfirðingar sjálfir sem hafi dregið úr kröfunum um breikkun Vestfjarðaganga og afmarkað breikkunina við Breiðadalslegginn og þannig fallist á það mat Hreins Haraldssonar að breikkunin eigi að miðast við ákveðinn umferðarþunga og eigi tæplega að fara inn í forgangsröðun nýrra jaröganga.
Þetta mat hlýtur Fjórðungssambandið að endurskoða eftir eldsvoðann í rútu í Tungudal fyrr í mánuðinum. Öryggismál vegfarenda í jarðgöngum verða að vera ofar á blaði og það hefur komið skýrt fram í máli lögreglu, slökkviliðsstjóra og Vegagerðar að í einbreiðum göngum er mun meiri hætta á ferðum.
Það er ekkert um það að ræða eftir þennan atburð að vísa í umferðartölur. Vegagerðin sjálf segir fullum fetum að ekki verði byggð einbreið göng og það hafi ekki verið gert mörg undanfarin ár einmitt af öryggisástæðum. Þær sömu öryggisástæður eiga við um einbreið göng til Súgandafjarðar.
-k