Vinstri grænir: almenningssamgöngur mikilvægar og borgarlína brýn

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 ályktaði sérstaklega um samgöngumál. Þar segir að fundurinn áréttar mikilvægi greiðra samgangna og fjölbreyttra valkosta í samgöngumálum í þágu allra landsmanna.

Brýnt er að stefna að hágæða almenningssamgöngum um land allt til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og byggja upp greiðar leiðir og fjölbreytt samfélag. Fundurinn hvetur innviðaráðherra til dáða, enda ærið verk að vinna en tækifærin mikil á næstunni í samgöngumálum. Almenningssamgöngur fela í sér mikilvæga kjarabót fyrir vinnandi fólk og fjölbreyttir ferðamátar eru leið til þess að efla lýðheilsu en jafnframt stuðla að vistvænna samfélagi. Fundurinn bendir á að við forgangsröðun framkvæmda þurfi ávallt að hafa grundvallargildi um félagslegt réttlæti og jöfnuð í forgrunni ásamt því að auka umferðaröryggi. Brýnt er að ljúka við uppfærslu Samgöngusáttmálans á höfuðborgarsvæðinu og koma Borgarlínu til framkvæmda. Einnig að tryggja góða og ítarlega vinnu við gerð tillögu um samgönguáætlun fyrir Alþingi í haust.

DEILA