Vindáttinni snúið í móttöku skemmtiferðaskipa

Stefna og aðgerðaráætlun um móttöku skemmtiferðaskipa, sem Í-listinn hafði forgöngu um að skrifa, var samþykkt í apríl. Fjölmargt í stefnunni er markvert, sumt er er komið til framkvæmda en annað er í undirbúningi. Síðan hafa íslenskir og erlendir fjölmiðlar talsvert sagt frá málinu.

Erlendir fjölmiðlar mæra stefnu Ísafjarðarbæjar um móttöku skemmtiferðaskipa

Af erlendum miðlum má fyrstan telja fagtímaritið Cruise Hive sem fjallar um stefnuna. Blaðið segir í lokaorðum sínum í lauslegri þýðingu minni: „Stefnan sem bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur sett sýnir skynsamlega og sjálfbæra stjórnun á stækkandi iðnaði. Þetta er líkan sem margar hafnir sem misst hafa tökin hefðu gjarnan viljað taka upp fyrr.“

Hið breska Express og Yahoo News fjölluðu einnig um stefnuna í vor. Þá fjallaði bloggarinn Gary Bembridge kersknisfulla grein um að Ísafjörður væri ein af fjölmörgum höfnum í kringum heiminn sem væri að „eyðileggja ferðaáætlanir skemmtiskipafarþega“.

Nú síðast skrifaði Politiken grein um stefnuna og byggði á nýju viðtali við mig. Politiken setur málið í stærra samhengi við Ísland sem ferðamannaland. Meðal annars sagði ég þar að þessari stefnu „hafi verið mætt með afar jákvæðum viðbrögðum innan bæjar og utan.“

Vindur blæs nú í bakið

Þetta er talsverður viðsnúningur frá þeirri umfjöllun sem var í fyrra, en þá var Ísafjörður talsvert settur í neikvætt ljós stjórn- og stefnuleysis. Við höfum snúið vindáttinni.

Framkvæmdir hafnarinnar hafa haldið áfram á Ísafirði og undirbúningur undir frekari framkvæmdir, til dæmis móttökuhús fyrir gesti. Skipulagsvinna er tímafrek og ósýnileg en er nú að nálgast endamark. Klósettum hefur verið fjölgað og sumarviðburðasjóður hafnarinnar lífgað bæjarlífið. Þá hefur Hafnarstrætið verið göngugata nokkra daga í sumar. Einnig hefur upplýsingagjöf verið stórefld með gamansömum upplýsingapistlum á Facebook.

Þá hafa tekjur hafnarinnar verið enn meiri en áætlað var, og orðaði BB það svo að hún mali gull. Þrátt fyrir mikil umsvif í fiskveiðum, fiskeldi og þungaflutningum, eru tveir þriðjuhlutar af tekjum hafnarinnar af móttöku skemmtiferðaskipa.

Athygli vekur að verulega hefur dregið saman með höfnunum þremur á toppi farþegalistans, og samkvæmt nýjustu tölum á mælaborði ferðaþjónustunnar, er sáralítill munur á Akureyri, Ísafirði og Reykjavík miðað við farþegafjölda í þúsundum.

Stefnan og aðgerðaráætlunin verður áfram leiðarljós við forgangsröðun verkefna næstu árin og er enn af nógu að taka.

Gylfi Ólafsson er formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar fyrir Í-listann.

DEILA