Útflutningsverðmæti sjávarafurða: fjórðungs aukning á milli ára í júlí

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 28,5 milljörðum króna í júlí samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum um vöruviðskipti sem Hagstofan birti á dögunum. Það er nokkuð myndarleg aukning frá júlí í fyrra, eða sem nemur um 26% í krónum talið. Þar sem gengi krónunnar var um 2% veikara nú í júlí en í sama mánuði í fyrra er aukningin aðeins minni í erlendri mynt, eða um 24%.

Þetta kemur fram á radarnum, mælaborði sjávarútvegsins.

Aukning í mjöli og lýsi

Ofangreinda aukningu má rekja til nokkurra vinnsluflokka. Ber fyrst að nefna fiskimjöl og lýsi, sem hvort um sig var óvenju fyrirferðarmikið miðað við júlímánuð. Þannig nam útflutningsverðmæti fiskimjöls um 4,4 milljörðum króna í mánuðinum, sem er um 70% aukning á milli ára á föstu gengi. Útflutningsverðmæti lýsis nam svo rúmlega 3,4 milljörðum króna í júlí, sem er hátt í þreföldun á milli ára. Eins var dágóð aukning í útflutningsverðmæti frystra flaka (33%) og ferskra afurða (14%). Á móti vóg talsverður samdráttur í útflutningsverðmæti á heilfrystum fiski, eða sem nemur um 32%.

199 milljarðar króna jan – júlí 2024

Á fyrstu sjö mánuðum ársins hafa verið fluttar út sjávarafurðir fyrir rúma 199 milljarða króna. Það er tæplega 1% aukning miðað við sama tímabil í fyrra á föstu gengi. Mest hefur aukningin orðið í útflutningsverðmæti lýsis, en verðmæti þess er komið í 17 milljarða króna á fyrstu sjö mánuðum ársins, samanborið við 12 milljarða á sama tímabili í fyrra. Það jafngildir rúmlega 42% aukningu á milli ára á föstu gengi. Eins er nokkuð myndarleg aukning í útflutningsverðmæti ferskra afurða. Útflutningsverðmæti þeirra er komið í 54 milljarða króna, sem er um 10% aukning á milli ára á föstu gengi. Eldislax er til dæmis flokkaður sem útflutningur á ferskum afurðum. Þá jókst útflutningsverðmæti frystra flaka um 6% á sama kvarða og saltaðra og þurrkaðra afurða um 2%.

DEILA