Tómas Rúnar Sölvason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Arctic Protein. Fyrirtækið er með starfsstöðvar á Bíldudal og í Patreksfirði og býður upp á sjálfbærar lausnir fyrir vinnslu úr aukaafurðum í sjávarútvegi og fiskeldi með meltuframleiðslu.
Tómas hefur nú þegar hafið störf en áður starfaði hann hjá Marel sem vélahönnuður í vöruþróun í kjötiðnaði. Á árunum 2014 – 2017 starfaði Tómas hjá vörubílaframleiðandanum Scania CV AB í Svíþjóð sem þróunarverkfræðingur í véladeild og þar á undan var hann hjá 3x Technology.
Tómas er með meistaragráðu í vélahönnunarverkfræði frá Kungliga Tekniska Högskolan í Stokkhólmi og BSc í véla- og orkutæknifræði frá HR.
Í fréttatilkynningu er haft eftir Tómasi að „Það verður spennandi að taka þátt í vexti fyrirtækisins en í sjávarútvegi og fiskeldi er áætlað að 30-35 prósent af afla fari til spillis á hverju ári. Markmið Arctic Protein er að efla þjónustu fyrirtækisins með samkeppnishæfum lausnum við vinnslu og verðmætasköpun úr hliðarafurðum,“.
Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arctic Protein segir að Tómas verði með skrifstofu í Bolungavík og að starfsemin sé að langmestu leyti á Vestfjörðum.