Teitur Björn: Tafir á uppbyggingu stofnvega á Vestfjörðum hefur bitnað illa á fólki og fyrirtækjum

Teitur Björn Einarsson alþm í Norðvesturkjördæmi.

Teitur Björn Einarsson, alþm. fjallar um samgönguáætlun í færslu á facebook í morgun. Hann segir að þörf sé á uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu. En bætir við að það þurfi sáttmála og uppbyggingarátak um greiðari samgöngur og aukið umferðaröryggi um land allt ekki bara á höfuðborgarsvæðinu.

Nefnir hann dæmi um slæmt ástand á tengivegum víða um land og bætir svo við:

„Tafir á uppbyggingu stofnvega á Vestfjörðum hefur bitnað illa á fólki og fyrirtækjum. Samkeppnishæfni fjórðungsins er minni en annars staðar af þeim sökum og leiðir til hægari atvinnuuppbyggingar og minni verðmætasköpunar en ella. Það er allra tap.

Skortur á viðhaldi og eðlilegri endurnýjun vega á Vesturlandi, sér í lagi í Dölum, stefnir í óefni og hefur leitt til öfugra „vegaskipta“ – frá bundnu slitlagi yfir í malarvegi. Áætlanir og áform, fyrirheit og loforð, um nýframkvæmdir, t.d. Uxahryggjavegur, hafa ekki staðist. Fjármagn hefur sogast af einhverjum ástæðum á aðra staði.“

Samgönguáætlun verði uppfærð

Um komandi samgönguáætlun segir Teitur Björn:

„Samgönguáætlun verður lögð fram að nýju á komandi þingi. Ég geng út frá því að brugðist verði við harðri gagnrýni á fyrri útgáfu áætlunarinnar sem lögð var fram síðasta vetur og samgönguáætlun uppfærð af þeim sökum og svipi til metnaðarfullra áætlana í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.“

DEILA