Um þessar mundir er framkvæmdum að ljúka við byggingu á fjórum nýjum íbúðum við Aðalgötu 17-19 á Suðureyri, hver íbúð er um 100 fermetrar. Framkvæmdir hófust fyrir rúmu ári og hafa fjölmargir verktakar og þjónustuaðilar í Ísafjarðarbæ komið að verkefninu. Höfðastígur ehf var framkvæmdaaðili verksins en leigufélagið Bríet hefur keypt þessar íbúðir til að setja á almennan leigumarkað.
„Það er mikið gleðiefni að þessi kraftmikli hópur verktaka er að skila þessu verki nokkuð vel af sér“, segir Elías Guðmundsson eigandi Höfðastígs. „Það voru tafir á afhendingu á lóðinni í upphafi svo verkið er smávegis á eftir áætlun. Það er langt frá því sjálfsagt né auðvelt verkefni að byggja íbúðarhúsnæði í litlum samfélögum út á landi þar sem aðgengi að fjármagni og aðföngum er af skornum skammti. Hópurinn sem kom að þessu á mikið hrós skilið og menn fara vonandi almennt stoltir frá þessu verkefni.“
Verkefnið er að ganga upp fyrir alla og segist Elías vona að húsin muni skapa gott mannlíf í þessu litla þorpi um langa framtíð.