Sandeyri: kröfu um ógildingu byggingarleyfis vísað frá

Frá Sandeyri.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál vísaði á föstudaginn frá kröfu eiganda Sandeyrar um að ógilda byggingarleyfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fyrir fiskeldiskvíar í sjó við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi.

Byggingarleyfið var gefið út 11. apríl 2024 og landeigandinn kærði þann 10. maí 2024.

Kærandinn hélt því fram að með hinu kærða byggingarleyfi hafi verið heimiluð stóriðja innan netlaga jarðar hans og að skipulagsyfirvöld hafi lagt rangt mat á umfang þeirra og legu. Þá var því einnig haldið fram að framkvæmdin muni hafa veruleg áhrif á nýtingu jarðarinnar, m.a. vegna mengunar í hafi og við strönd, hávaða, ljós- og sjónmengunar. 

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun andmælti þessu sagði að kærðar byggingarleyfisframkvæmdir hafi verið utan netlaga jarðar kæranda og því væri hann ekki aðili að stjórnsýslumáli um byggingarleyfið.

Leyfishafinn Arctic Fish sagði kæranda ekki eiga kæruaðild. Ótvírætt væri að eldissvæði leyfishafa liggi mun lengra frá stórstraumsfjöruborði en 115 m. Stysta fjarlægð frá því svæði sem byggingarleyfið taki til að fasteign kæranda sé um 600 m og möguleg grenndaráhrif væru því óveruleg. Því til viðbótar hafi þýðingu að kærandi hafi ekki fasta búsetu á fasteigninni, en hún sé ætluð til notkunar yfir sumartímann. Að lokum liggi fyrir að leyfishafi hafi haft rekstrarleyfi á svæðinu frá árinu 2012 eða rúmum þremur árum áður en kærandi hafi eignast sína fasteign.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar er að eldissvæðið sé utan netlaga Sandeyrar. Verður því aðild kæranda ekki reist á því að sjókvíar leyfishafa séu í netlögum landareignar hans.

„Af aðaluppdráttum er fylgdu byggingarleyfisumsókn leyfishafa verður ráðið að fjarlægð frá fiskeldiskvíum og tengdum mannvirkjum að húsi kæranda sé um 2 km og að fjarlægð frá kvíunum að strandlengju sé um 1 km. Þrátt fyrir að kærandi megi vænta einhverrar truflunar vegna starfseminnar verður að teknu tilliti til framangreindra fjarlægðarmarka ekki álitið að grenndarréttur kæranda sé skertur svo verulega að hann teljist hafa lögvarða hagsmuni í málinu.“

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni segir í lokaorðum úrskurðarins. 

DEILA