Tilkynnt var í gær um úthlutun styrkja úr Orkusjóði. Alls voru veittir 53 styrkir til orkuskipta samtals að fjárhæð 1.343 m.kr.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir að styrkveitingarnar nú hafi þau áhrif að áætlaður samdráttur í notkun jarðefnaeldsneytis vegna þeirra verkefna sem styrk hljóta verði sem nemur 11 milljón olíulítrum á ári.
Samtals fengu 53 verkefni styrk úr Orkusjóði að þessu sinni. Verkefnin eru af ýmsum stærðum og koma til framkvæmda víða um land og hafa það að markmiði að draga hratt úr losun. Alls bárust um 154 umsóknir að upphæð rúmlega 6,7 milljarða kr. Verkefnin 53 sem styrkt eru (utan innviðaverkefna) eru metin á 8,4 ma. kr., en hver styrkupphæð getur hæst numið einum þriðja af heildarkostnaði verkefna.
Hæsta styrkfjárhæðin til einstaks verkefnis er 75 m.kr. og er til íslenska vetnisfélagsins. Heildarkostnaður við það verkefni er 1,5 milljarður króna.
Tíu verkefni á Vestfjörðum fengu styrk samtals 99 m.kr. og nam styrkfjárhæðin þriðjungi kostnaðar hverju sinni nema í einu þar sem hlutfallið er 20% og öðru þar sem það var100%.
Ísorka ehf fékk 11.454.000 kr. styrk til orkuhleðslustöðvar í Flókalundi.
Strandabyggð fékk 14 m.kr. styrk vegna varmadælu á Hólmavík.
Orkubú Vestfjarða fékk þrjá styrki. Einn heitir upphaf orkuskipta í Flatey og er 19.3 m.kr. Orkuskipti í fjarvarmaveitu á Patreksfirði er styrkt um 11.550.000 kr. og sama upphæð til Bolungavíkur.
Vestfirskar ævintýraferðir ehf fékk 8 m.kr. styrk til rafknúins hópferðabíls á Ísafirði. Þar var styrkhlutfallið 20%.
Arna ehf í Bolungavík fékk 6,1 m.kr. styrk vegna rafmagnsketils.
Galdur Brugghús hlaut 5 m.kr. styrk vegna vistvænnar bjórframleiðslu.
Hvallátur ehf var styrkt um 3,2 m.kr. til orkuskipta í Hvallátrum.
Loks fékk Vesturbyggð 100% styrk 5,8 m.kr. til þess að leggja þriggja fasa rafmagn að Fossi í Arnarfirði.