Norðureyri ehf: launakostnaður 32 m.kr. pr ársverk

Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri.

Laun og tengd gjöld útgerðarfyrirtækisins Norðureyri ehf á Suðureyri voru á síðasta ári 270 m.kr. og stöðugildin 8,5. Meðallaunakostnaður á hvert ársverk var því 31,7 m.kr. eða 2,6 m.kr. á mánuði.

Norðureyri ehf gerir út línubátinn Einar Guðna ÍS. Helsta eign fyrirtækisins eru fiskveiðiheimildir og voru þær færðar á 1.779 m.kr. í lok síðasta árs. Heimildirnar voru 1.106 þorskígildistonn.

Tekjur síðasta árs voru 764 m.kr. og 30 m.kr. komu frá dóttufyrirtækinu Fiskvinnslunni Íslandssögu ehf. Hagnaður fyrir tekjuskatt voru 119 m.kr. eða um 16% af tekjum.

Norðureyri ehf á 73% hlutafjár í Fiskvinnslunni Íslandssögu ehf. og er eignin bókfærð á 196 m.kr. í efnahagsreikningi Norðureyrar ehf.

Stjórnin segir í skýrslu sinni að rekstur félagsins hafi verið góður á síðasta ári en rekstrarhagnaður var sambærilegur milli ára. En fjármagnsliðir voru mjög óhagstæðir, hækkun vaxta um 77,7% en þróun krónunnar var hagstæð í ár og gengishagnaður var 15 mkr. Stjórnendur telja afkomuna viðunandi og að framtíðarhorfur séu góðar.

Hluthafar í Norðureyri ehf eru 8. Klofningur ehf er stærstur með 32,1%, þá kemur Hraðfrystihúsið Gunnvör hf með 23,2%, Þórður Emil Sigurvinsson á 13,4%, Elvar Einarsson, Óðinn Gestsson og Guðni A. Einarsson eiga 9,4% hver, eignarhaldsfélagið Hvetjandi á 2% og Flugalda ehf á 0,9%.

Enginn arður verður greiddur á árinu 2024 og hagnaður ársins 2023 verður yfirfærður til næsta árs.

Í stjórn félagsins eru Guðni Albert Einarsson, formaður, Elvar Einarsson, Jón Þór Gunnarsson, Einar Valur Kristjánsson og Þórður Emil Sigurvinsson.

Framkvæmdastjóri er Óðinn Gestsson.

DEILA