Ísafjörður: Muggi byggir

Muggi við grunninn að framtíðarheimilinu. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Guðmundur Magnús Kristjánsson fyrrv hafnarstjóri Ísafjarðahafna hafði í nógu að snúast þegar Bæjarins besta hitti hann í gær. Hann er að byggja stórt einbýlishús að Hlíðarvegi 50 með afbragðsútsýni yfir Skutulsfjörðinn þar sem 20 sjókvíar blasa við á fjölfjörnustu siglingaleið Ísafjarðardjúpsins til marks um þróttmikinn framgang í vestfirsku atvinnulífi.

Grunnur og sökklar eru tilbúnir og í gær voru á leiðinni vestur með flutningabíl húseiningarnar sem koma eiga ofan á grunninn. Það eru smiðir frá Lettlandi sem koma með einingunum og setja þær saman. Aðspurður segir Muggi að húsið verði 170 fermetrar að stærð og byrjað verði að reisa þær þegar í dag, þriðjudag. „Það mun taka þrjá daga og þá verður húsið tilbúið að utan, en nokkrar vikur þarf til þess að vinna innanhúss, innréttingar, hurðir og annað þess háttar.“

Muggi sagðist vonast til þess að vera fluttur inn fyrir jól.

DEILA