Fyrir umhverfis- og framkvæmdanefnd Ísafjarðarbæjar hefur verið lögð fram til kynningar drög að viljayfirlýsingu Ísafjarðarbæjar og Sorporku ehf. um rekstur sorpbrennslustöðvar. Einnig lögð fram kynning á 1 megawatta sorpbrennslustöð frá Ferropower í Finnlandi sem Sorporka ehf hefur undirritað samkomulag við um að reisa slíka stöð á Íslandi.
Afstaða nefndarinnar var að ekki væri tímabært að skrifa undir viljayfirlýsingu að svo stöddu og telur nefndin þörf á frekari greiningu og gagnaöflun.
Sorporka ehf hefur kynnt þessar brennslustöðvar fyrir sveitarfélögum. Í frétt um málið í Eyjafréttum í október 2023 segir að gert sé ráð fyrir, að Sorporka ehf fjármagni, byggi, eigi og reki stöðvarnar. Forsenda þess er sú, að sveitarfélagið geri 25 ára samning við Sorporku um að afhenda það sorp, sem annars færi til urðunar. Er þá gert ráð fyrir, að sveitarfélagið greiði svokallað hliðgjald.
Meðal eigenda að Sorporku ehf eru Stefán Guðsteinsson, skipatæknifræðingur og Júlíus Sólnes, prófessor emerítus og fyrrum umhverfisráðherra.
Þeir kynntu fyrir Vestmannaeyjabæ 1 MW sorporkustöð fyrir brennslu á 1000 –3000 tonnum af afgangssorpi, sem annars færi til urðunar.
Þeir segja að stöðvarnar uppfylli ströngustu kröfur Evrópusambandsins um mengunarvarnir og framleiði sem nemur 8000 MWstundum/ári af sjóðandi heitu vatni. Einnig er hægt að bæta raforkuframleiðslueiningu við stöðina, þannig að hún framleiði 750 MWstundir á ári af rafmagni til dreifingar inn á dreifikerfi rafmagns. Ef sorpmagn kallar á stærri stöð, er auðvelt að bæta annarri einingu við.
Glæra frá Sorporku ehf.
Sorpstöð Rangárvallasýslu hefur undirritað viljayfirlýsingu við Sorporku ehf og hefur áhuga á að skoða málið áfram.
Samband íslenskra sveitarfélaga fékk Svönu Helenu Björnsdóttur, verkfræðing og stjórnarmann Sorpu, og Valgeir Pál Björnsson, verkefnastjóri hjá Sorpu til að taka saman minnisblað um örbrennslur.
Minnisblaðið, sem er dagsett 15. febrúar 2024, byggir á ferð nokkurra fulltrúa sveitarfélaga, Sorporku ehf. og Sorpu bs. til fyrirtækisins Ferroplan Oy í Finnlandi þar sem slíkri örbrennslustöð hefur verið komið upp. Beinn kostnaður við brennslustöð sem þessa er áætlaður um 640-820 m.kr. sem myndi kalla á hliðgjöld upp á 59 – 72 kr./kg. án óvissu, vaxtakostnaðar og arðsemiskröfu.
Í minnisblaði þeirra segir að það sem einkenni stöðina er að allt er gámabyggt og allt gert til að vera færanlegt. Stöðin tekur við smærra efni, forhreinsuðu og forunnu en efnið þarf að vera þurrt til að geta brunnið. Ekki liggja fyrir gögn um að stöðin uppfylli kröfur um orkunýtingu svo að brennsla úrgangsins geti talist til endurnýtingar í stað förgunar. Óljóst er hversu mikið af brennanlegum úrgangi geti raunverulega hentað í örbrennslu sem þessa, sem dæmi virðist sláturúrgangur ekki henta inn í slíka vinnslu.