Hvalá: Hæstiréttur skoðar kröfu um áfrýjun

Hvalárfoss. Mynd úr matsskýrslu Vesturverks um Hvalárvirkjun.

Á mánudaginn rann út frestur sem Hæstiréttur hafði gefið málsaðilum til þess að skila greinargerð um afstöðu sína til kröfu nokkurra landeiganda jarðarinnar Drangavíkur í Árneshreppi um að fá að áfrýja dómi Landsréttar í júní um landakröfur þeirra á hendur aðliggjandi jörðum, Engjanesi og Ófeigsfirði.

Hæstiréttur tekur nú kröfuna til meðferðar og hefur fjórar vikur lið lengsta til þess að heimila áfrýjunina eða hafna henni. Eigi síðar en 9. september liggur fyrir afstaða Hæstaréttar.

Verði kröfunni hafnað er málaferlunum lokið en verði hún samþykkt tekur við málsmeðferð fyrir Hæstarétti.

Kærendur í málinu höfðuðu mál fyrir dómstólum og kröfðust þess að til Drangavíkur væri dæmt allstórt landsvæði sem tilheyrir Ófeigsfirði og Engjanesi. Héraðsdómur Reykjavíkur og Landsréttur hafa báðir hafnað kröfunum með öllu og dæmt kærendur til þess að greiða allháar fjárhæðir í málskostnað.

Í erindi sínu til Hæstaréttar í sumar vekja kærendurnir athygli á tengingu landakröfunnar við virkjunaráform Hvalár sem þeir segjast vera andvígir: „Í þessu sambandi er sérstaklega vísað til að undirrót máls þessa er fyrirhuguð Hvalárvirkjun. Eru áfrýjendur andstæðingar þeirra virkjunaráforma en aðrir meðeigendur þeirra hlynntir þeim.“

Vinnist málið fellur land þá undir andstæðinga virkjunarinnar og þar með virkjunarréttindi vatnsaflsins og þá yrðu ógildir samningar milli Vesturverks ehf og eigeda Engjaness og Ófeigsfjarðar um heimild til virkjunar.

DEILA