Hesteyri: samþykkt leyfi fyrir gististað fyrir 16 manns

Læknishúsið á Hesteyri.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar segir í umsögn sinni til Sýslumannsembættisins á Vestfjörðum að það geri ekki athugasemdir við veitingu leyfis til handa Hrólfi Vagnssyni vegna Læknishússins á Hesteyri ehf.

Sótt er um leyfi til reksturs gististaðar i flokk IV – C minna gistiheimili.

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða segir að í Læknishúsinu sé gisting í gistiskála á eftirhæð í þremur herbergjum með gistingu fyrir 16 gesti, snyrting og sturtu á efrihæð. Eftirlitið skoðaði aðstöðuna í júní síðastliðnum. Starfsleyfi var gefið út 2011 og gilti til 2023. Heilbrigðiseftirlitið segir að ekkert sé því til fyrirstöðu að leyfi fyrir krá kaffihúsi verði veitt.

Slökkvilið Ísafjarðarbæjar fellst á að ofangreint leyfi verði veitt miðað við 16 manns, en með fyrirvara um úrbætur eldvarna. Verði þeim ekki sinnt á fullnægjandi hátt innan gefins frests, muni slökkviliðsstjóri óska eftir því að sýslumaður afturkalli rekstrarleyfi sbr. ofangreint ákvæði reglugerðar.

Í umsögn byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar segir að „skv. uppdráttum hússins er jákvæð umsögn veitt ef frá eru skilin atriði tengdum brunavörnum og flóttaleiðum. Það er því mitt mat að þarna ráði umsögn slökkviliðs mestu við veitingu á rekstrarleyfi.“

DEILA