Gott að eldast: Samningur undirritaður um samþætta heimaþjónustu í Vesturbyggð

Lúðvík Þorgeirsson, forstjóri HVest, og Gunnþórunn Bender, forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar, undirrita samninginn.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Vesturbyggð hafa gert með sér samning um rekstur samþættrar heimaþjónustu í sveitarfélaginu. Samningurinn er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda; Gott að eldast, sem felur í sér heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk með áherslu á að þjónusta sé veitt þegar hennar er þörf, á forsendum fólksins sjálfs og á réttu þjónustustigi. 

Samkvæmt samningnum mun Heilbrigðisstofnun Vestfjarða taka að sér rekstur heimastuðnings í samstarfi við sveitarfélagið. Þjónustugátt verður ein sem þýðir að allar beiðnir um þjónustu fara í gegnum eitt kerfi og mat á þeim verður sameiginlegt verkefni félags- og heilbrigðisstarfsfólks. Lögð verður áhersla á persónumiðaða nálgun þar sem fagfólk vinnur saman í teymisvinnu.

Markmiðið með verkefninu er að auka gæði þjónustu fyrir eldra fólk, minnka líkur á að fólk falli á milli þjónustukerfa og fækka innlögnum á sjúkrahús og hjúkrunarheimili. Með samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu er stefnt að því að þjónustan verði í einu flæði og að brugðist sé fljótt við breyttum þörfum notenda.

Það er mat samningsaðila að með samningnum sé stigið mikilvægt skref í átt að betri og skilvirkari þjónustu við eldra fólk í Vesturbyggð, þar sem hámarks nýting fjármuna sé tryggð án þess að það komi niður á gæðum þjónustunnar. Vonir standi til þess að þær breytingar sem samþætting heimaþjónustunnar felur í sér muni leiða til betri lífsgæða fyrir eldri íbúa sveitarfélagsins.

DEILA