Í Bolungavík hafa verið mynduð samtök um endurbætur á gamla róló, sem kallaður er, en þar var leikskólinn lengi áður en byggt var nýr leikskóli við Hlíðarstræti. Leikvöllurinn hefur áfram verið notaður sem leiksvæði fyrir börn og þar er m.a. ærslabelgur staðsettur.
Samtökin nefnast vinir gamla róló og hafa þau að sögn Magnúsar Inga Jónssonar safnað hátt í 4 m.kr. til kaupa á leiktækjum. Magnús segir um að ræða 10 leiktæki af ýmsum gerðum svo sem körfurólu, vegasalt, gámatæki og hljómlistartæki. Búið er að panta tækin erlendis frá og eru þau væntanleg innan skamms og verða sett upp í sumar.
Magnús segir að gengið hafi vel að safna fé, haldið hafi verið bingó, leitað til einstaklinga og fyrirtækja og nú er verið að selja snúða þar sem poki með 10 snúðum selst á 3.000 kr. Auglýst er á eigin facebooksíðu , sem nefnist vinir gamla róló og eins á auglýsingartöflunni fyrir Bolungavík.
Magnús Ingi segir að endurbætur sumarsins séu aðeins fyrsti áfangi af þremur sem fyrirhugaðar eru á gamla róló. Hann segir hugmyndir uppi um næstu skref, m.a. hafi komið upp tillögur um hjólabraut og rampa en þetta verði frekar ákveðið síðar.
Samtökin sendu erindi til Bolungavíkurkaupstaðar og fóru fram á fjárstyrk til tækjakaupanna.
Katrín Pálsdóttir, starfandi bæjarstjóri segir að bæjarráðið hafi tekið vel í erindið og fagnað framtakinu. Verður fulltrúum samtakanna boðið til fundar við bæjarráð til þess að fara yfir erindið.