Strandabyggð: úttekt á greiðslum til fyrrverandi sveitarstjórnarmanns

Sveitarstjórn Strandabyggðar tók fyrir á fundi sínum í gær, erindi frá Jóni Jónssyni fyrrverandi sveitarstjórnarmanni, þar sem hann tilkynnti sveitarstjórn um fyrirhugaða undirskriftarsöfnun í sveitarfélaginu þar sem óskað yrði eftir almennri atkvæðagreiðslu um tiltekið mál er varðaði sveitarfélagið. Ætlunin væri að safna undirskriftum til að kosið yrði um þá kröfu til sveitarfélagins að það standi fyrir því að gerð yrði óháð rannsókn á ásökunum lykilstarfmanna sveitarfélagins, sveitarstjóra annars vegar og íþrótta- og tómstundafulltrúa hins vegar, í hans garð. Er Jón Jónsson ósáttur við ásakanirnar og vill að þær verði dregnar til baka.

Í byrjun júlí sl. áttu fulltrúar í sveitarstjórn og lögfræðingur sveitarfélagsins fund með Jóni Jónssyni þar sem farið var yfir fyrrgreint erindi.  Á þeim fundi kom m.a. fram að Jón Jónsson væri reiðubúinn að falla frá fyrirhugaðri undirskriftarsöfnun í sveitarfélaginu ef sveitarstjórn samþykkti að láta fara fram úttekt á öllum greiðslum til hans svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetu, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar.

Sveitarstjórnin samþykkti að leitað verði til endurskoðunarfyrirtækisins KPMG, sem annast endurskoðun ársreikninga sveitarfélagsins, um að gera úttekt á öllum greiðslum til Jóns Jónssonar svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetu, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, þ.e. á árunum 2010 – 2014 og 2019 – 2022.

Við fyrrgreinda úttekt verði lagt mat á hvort fullnægjandi samþykktir eða samningar hafi staðið að baki þeim ákvörðunum af hálfu sveitarfélagsins sem lágu til grundvallar umræddum greiðslum/fjárveitingum og hvort þær hafi að öllu leyti verið teknar í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga, samþykkta og siðareglna Strandabyggðar. 

Fyrrgreindri úttekt skal lokið við fyrsta tækifæri og eigi síðar en 30. september næstkomandi. Niðurstöður úttektarinnar skulu kynntar á heimasíðu sveitarfélagsins.

DEILA