Nanný Arna: er ekki bæjarfulltrúi Vinstri grænna – eru skemmtiferðaskipin vandamál?

Skjáskot af frétt RUV.

Ríkisútvarpið birti á sunnudaginn viðtal við Nanný Örnu Guðmundsdóttur, bæjarfulltrúa Í listans og sagði hana vera bæjarfulltrúa Vinstri grænna í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Aðspurð segir Nanný Arna Bæjarins besta að hún sé bæjarfulltrúi Í listans og hafi allaf starfað sem slíkur. 

„Ég er fulltrúi Í-listans, var í framboði fyrir Í-listann og vinn eftir stefnu Í-listans í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. Ég er hins vegar skráð í stjórnmálaflokkinn VG.“ segir Nanný Arna. 

Eru skemmtiferðaskipin vandamál?

Viðtalið snerust um erlend skemmtiferðaskip og fjölda ferðamanna á Ísafirði. Spurningar fréttarmannsins Gunnhildar Kjerúlf Birgisdóttur lýstu frekar neikvæðri nálgun til þessarar miklu lyftistangar í vestfirsku efnahagslífi.

Fyrst lagði hún mikla áherslu á fjöldann. Erlendu ferðamennirnir skiptu þúsundum og því væri heimamenn síður á ferli og spurði hvort þeir héldu sig meira heima. Næsta spurning var hvort nóg væri til af mat.

Þegar bæjarfulltrúinn hafði lagt sig fram í svörum sínum um að draga fram hið jákvæða sem fylgdi skemmtiferðaskipunum kom loksins spurningin en „fylgja þessum farþegum miklar tekjur.“

Segja má að það hafi loks tekist að kreista upp úr fréttamanninum að sunnan eitthvað annað en vandamálanálgun á komu skemmtiferðaskipanna og er það vel.

Svo má segja RUV til hróss að ekkert var minnst á mengun af skemmtiferðaskipunum að þessu sinni. En í fyrra var RUV alveg í kasti yfir meintri mengun frá skipunum og svo því að ferðamennirnir væru alltof margir fyrir Ísafjörð. Það var meira að segja sendur fréttamaður vestur til þess að reka hljóðnemann upp í bæjarstjórann og fá hana til þess að taka undir það að ferðamennirnir væru of margir og svo var það mengunin.

En nú er ekkert minnst á það. Það er kannski vegna þess að það var aldrei nein mengun yfir leyfilegum mörkum. Bæjarins besta óskaði eftir því í fyrra eftir viðamikla umfjöllun RUV og reyndar fleiri miðla um mengunina að fá gögn sem staðfestu mengunina. Leitað var til Ísafjarðarbæjar og Umhverfisstofnunar.

Skemmst er frá því að segja að engin gögn bárust. Það voru engar mælingar sýndar sem staðfestu meinta mengun frá skemmtiferðaskipunum. Líklega var þetta bara ástæðulaust upphlaup hjá RUV. Því er umfjöllunin í ár skárri en í fyrra. Kannski verður hún á næsta ári þannig að RUV segir frá uppbyggingunni og öllum jákvæðu áhrifunum, hver veit.

En það er örugglega til of mikils mælst að RUV spyrji borgarstjórann í Reykjavík hvort ferðamennirnir séu ekki örugglega of margir á suðvesturhorninu eða hvort til sé nógur matur fyrir þá.

En það er eftirtektarverð þessi neikvæða nálgun á uppbyggingu og framfarir á landsbyggðinni. Það er eins og sumir ónefndir fjölmiðlar í Reykjavík geti ekki höndlað slíkar fréttir. Umfjöllunin snýst meira og minna um hættur sem fylgja eða vandamál, sérstaklega fyrir náttúruna og helst má ekkert gera fyrir en að búið er að sanna að ekkert óæskilegt fylgi.

Eigum við nokkuð að ræða Teigskóg, Hvalárvirkjun eða laxeldið?

-k

DEILA