Minning: síra Lárus Þ. Guðmundsson

f. 16. maí 1933 – d. 4. júní 2024.

Jarðsunginn frá Digraneskirkju 28. júní 2024.

Að góðklerkinum síra Stefáni á Þingeyri Eggertssyni gengnum varð síra Lárus Þorvaldur Guðmundsson í Holti í Önundarfirði prófastur  Ísafjarðarprófastsdæmis.  

Stórmikil eftirsjá var að síra Stefáni, þessum sérstæða og skemmtilega manni, sem meðal annars hafði forgöngu um gerð flugvallar á Þingeyri, bjargaði með talstöð sinni áhöfn togara sem sökk, og sneri að gamni sínu íslenskum staðarnöfnum í erlend mál. Fagurhólsmýri varð þannig á dönsku Smukkerupsmose, Sauðárkrókur á ensku Sheepriverhook og Hnífsdalur Knife Valley. 

Síra Lárus var ljúfmenni og einkar nákvæmur embættismaður. Gegndi hann  prests- og prófastsstörfum af alúð og samviskusemi.   Hann sat Holts stað af reisn og hirtni, ræktaði æðarvarpið með mikilli hind og jók það til muna. Naut eftirmaður hans góðs af heldur en ekki. Síra Lárus var útilífs-, veiði- og íþróttamaður; gekk á skíðum, átti hesta, sömuleiðis vélsleða og hlut í flugvél.  Hann kunni ekki að hræðast og fór allra sinna ferða án tillits til veðurs og færðar.  Kátir piltar kölluðu sóknarprest sinn Lalla sport.  Hann vildi öllum vel, var manna þýðastur í ávarpi og heilsaði gjarnan með orðunum “komdu fagnandi og blessaður.” 

            Utansveitarmenn voru á skemmtigöngu í  Holtsodda.  Þeir sáu mann, sem snertispöl frá landi reri gúmmbáti hljóðlátum áratogum, íklæddur felubúningi og vopnaður.  Hér var prófastur á ferð,  sívökull og óþreytandi gæslumaður æðarvarpsins og svarinn andstæðingur vargs.  Fullyrt var, að hann hefði helst viljað útrýma með öllu tegundinni hrafn (corvus corax).   

            Haldinn var prestafundur á Hrafnseyri.  Þetta var einn þeirra daga, þegar Skaparinn hefur dregið þráðbeina línu neðan við brúnir fjallanna, en fyrir ofan hana er sólbjört fönnin.  Síra Lárus hringdi  upp nágrannapresta tvo og bauð þeim að koma við í Holti hjá þeim frú Sigurveigu á leiðinni vestur.  Þekktust þeir það, gengu í bæinn og var bugað að þeim höfðinglega, enda gestrisni alla stund viðbrugðið á heimili þeirra hjóna.  Frú Sigurveig var hjúkrunarkona héraðsins, mjög vel látin og að verðleikum, því að hún var stórvel gefin og eftir því eljusöm.  

Síra Lárus spurði þá starfsbræður, hvort heldur þeir vildu aka eða fljúga yfir í Arnarfjörð.  Þeir kusu seinni kostinn, svo síður spyrðist, að þeir væru flughræddir.  Síra Lárus hringdi til góðbónda, sem kom að vörmu spori.  Settust  fjórir upp í vélina og skiptust þeir í framsætunum á orðum, sem flugmönnum byrjar, og prestunum í aftursætunum heyrðist vera  útlenska.  Ferðin var flugtak og lending.  Leið svo fundurinn af.  Bóndi kom fljúgandi að Eyri, sótti kennimennina og var svo lent á flugvellinum í Holti, gengið í bæinn og þeginn rausnarlegur beini.  Þetta var góður dagur, sem minnst hefur verið æ síðan. 

            Vel hélt síra Lárus atgervi sínu þótt árin færðust yfir.  Prestur í Reykjavík  auglýsti messu.  Ekki varð þó af því að hann fengi framið þjónustuna sökum heimsfaraldursins.  En gljáfægðri bifreið af gerðinni Mercedes-Benz var rennt í stæði við kirkjuna, og út steig prúðbúinn maður, í svörtum, skósíðum frakka, með hatt og leðurhanska:  Síra Lárus, rétt að verða níræður, hér kominn að sækja kirkju.

            Guð huggi og styrki ástvini öðlingsins síra Lárusar Þorvaldar Guðmundssonar.  Guð blessi minningu góðs drengs og ógleymanlegs embættisbróður.

Gunnar Björnsson, pastor emeritus.

DEILA