Arnarlax: hagnaður 1,7 milljarðar kr. og sterk eiginfjárstaða

Höfuðstöðvar Ararlax eru á Bíldudal. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Hagnaður af rekstri Arnarlax varð á síðasta ári 1,7 milljarðar króna. Tekjuskattur af hagnaði er um 390 m.kr. Heildartekjur félagsins voru um 25 milljarðar króna. Eignir Arnarlax eru bókfærðar á 35 milljarða króna og þar af er eigið fé um 23 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfallið er 65% og hækkaði það frá fyrra ári úr 62%. Hagnaður ársins varð mun minni en árið 2022 vegna óvenjumikilla affalla.

Laun og tengd gjöld voru 2,6 milljarðar króna. Á árinu voru 167,5 stöðugildi hjá Arnarlax af a.m.k. 15 mismunandi þjóðernum, sem er aukning um 13,5 stöðugildi frá árinu 2022.

Að meðaltali voru laun og tengd gjöld á hvert stöðugildi 1,3 m.kr. á mánuði samkvæmt upplýsingum í ársreikningi félagsins.

Handbært fé um áramót nam 1,3 milljörðum króna. Á árinu fór fram endurfjármögnun félagsins fyrir 100 milljónir evra eða 15 milljarða íslenskra króna og segir í ársreikningnum að „tryggir sú fjármögnun rekstur fyrir komandi ár og fjármögnun á frekari fjárfestingum til að tryggja enn frekari vöxt félagsins.“

Sláturmagn jókst um 11 prósent úr 16,1 þúsund tonnum árið 2022 í 17,9 þúsund tonn árið 2023 og hefur það aldrei verið meira.

Með nýfengnu 10.000 tonna leyfi í Ísafjarðardjúpi hefur Arnarlax framleiðsluleyfi fyrir 33.700 tonnum.

Í lok árs 2023 átti félagið fjórar seiðaeldisstöðvar þar sem þrjár þeirra voru í rekstri en sú fjórða í undirbúningi fyrir seiðaframleiðslu. Áætlað er að framleiðsla þar hefjist árið 2024. Ein þessarra seiðeldisstöðva sem staðsett er í Tálknafirði var úthlutað auknu framleiðsluleyfi frá 200 tonnum í 1.000 tonn árið 2023. Sú stöð framleiddi rúmlega 2,3 milljónir laxeldisseiða á árinu.

Fram kemur einnig að vinnslustöðin á Bíldudal þar sem laxinum er slátrað hafi árlega afkastagetu að 30.000 tonnum.

DEILA