822 starfandi í fiskeldi – 974 þús kr/mán í laun

Í radarnum, frérttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, sem kom út í gær kemur fram að fyrstu fjóra mánuði ársins 2024 hafi að jafnaði 822 verið starfandi í fullu starfi við fiskeldi og launagreiðslur til þeirra hafi verið 3.200 milljónir króna. Atvinnutekjur á mann í fiskeldi voru 974 þúsund krónur á mánuði og er greinin þar með í fjórða sæti yfir hæstu atvinnutekjur á mann hér á landi. Frá sama tímabili árið 2010 hefur fjöldinn fimmfaldast.

SFS bendir á að aldrei hafi fleiri einstaklingar starfað við fiskeldi hér á landi en nú um stundir. Að sama skapi hafi atvinnutekjur í greininni aldrei verið meiri. Þetta megi sjá í tölum sem Hagstofan birti nýverið um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur, sem er stærsti hluti atvinnutekna launafólks. Samhliða birtir Hagstofan tölur um fjölda einstaklinga sem fær þær greiddar.

Atvinnutekjur á mann í fiskeldi hafa verið nokkuð hærri en að jafnaði í öllum atvinnugreinum samanlagt frá árinu 2014. Fyrir þann tíma var þessu öfugt farið. Þar hefur munurinn jafnframt verið ívið meiri á allra síðustu árum en hann var fyrst eftir að atvinnutekjur i fiskeldi tóku fram úr. Á fyrstu 4 mánuðum ársins voru atvinnutekjur á mann um 85% hærri að raunvirði en á sama tímabili árið 2010. Það er mesta aukning atvinnutekna á mann af öllum atvinnugreinum hér á landi. Að jafnaði hafa atvinnutekjur á mann í öllum atvinnugreinum samanlagt hækkað um 29% að raunvirði á sama tíma.

DEILA