Sunndalsá: andsvar Ívars Arnar Haukssonar

Borist hefur svohljóðandi andsvar Ívars Arnar Haukssonar vegna frétta af veiðum í Sunndalsá:

„Í fyrsta lagi er rangt að ég hafi stundað veiðar í Sunndalsá þótt framsetning og myndbirting frétta BB gefi slíkt sterklega í skyn. Ég tók einungis upp myndefni af hópi við veiðar en er málaður upp sem einhverskonar forsprakki hópsins, sem er rangt. Í öðru lagi var ekki veitt í óþökk eða óleyfi landeigenda. Friðleifur Guðmundsson fékk leyfi fyrir hópinn hjá landeigendum. Fram kom að einungis 2/3 landeigenda hafi heimilað veiðar, en BB spurði veiðiréttarhafa ekkert út í þá lögbundnu skyldu þeirra að stofna veiðifélag skv. 37. gr. laga um lax- og silungsveiði. Í þriðja lagi er talað um í fréttum BB af málinu að hópurinn hafi veitt 16 laxa í net. Það er rangt, raunin er sú að enginn eldislax veiddist í net í Sunndalsá
en heildartala eldislaxa sem veiddust í þessari ferð var yfir 20 eldislaxar úr þremur mismunandi ám á sunnanverðum Vestfjörðum.
Þá fjallar BB hvergi um þá staðreynd að Hafrannsóknarstofnun hefur í fréttum sínum áréttað að árvekni veiðimanna sé mikilvæg ásamt því að koma sérstaklega á framfæri þökkum til veiðimanna sem hafa veitt og skilað inn eldislaxi. Þrátt fyrir það vitnar BB beint í starfsmann Hafrannsóknastofnunar í sinni umfjöllun. Að lokum minnist BB hvergi á aðgerðaráætlun Fiskistofu frá 12. september. Í henni framlengdi Fiskistofa veiðitímabilið til og með 15. nóvember 2023 í þeim tilgangi eingöngu að leita uppi og fjarlægja eldislax
úr ám til varnar vistfræðilegu tjóni. BB fullyrðir í tveimur fréttum sínum af málinu að veiðitímabilinu hafi verið lokið þegar veiðarnar sem voru myndaðar fóru fram, sem er rangt.“

Aths ritstjóra 19.11. kl 21:58: Ívar segir rangt að veitt hafi verið „í óþökk eða óleyfi landeigenda“. Þessi staðhæfing hans er ósönn. Í frétt bb.is af málinu segir einmitt að það hafi verið í óþökk eins landeigandans Jóns Páls Halldórssonar og haft eftir syni hans Pálma K. Jónssyni. Þar segir Pálmi einnig að leyfi hefði ekki verið veitt ef talað hefði verið við hann og ennfremur að samþykki allra landeigenda þurfi fyrir veiðunum. Þetta liggur fyrir í málinu og Ívar ber ekki brigður á framburð Pálma. Ívar skýrir ekki frekar þá staðhæfingu sína að leyfi hafi fengist þrátt fyrir andstöðu eins eigandans.

Þá segir Ívar rangt að eldislax hafi veiðst í net í Sunndalsá. Um það er myndband hans sjálfs vitnisburðurinn. Þar kemur fram að 16 eldislaxar hafi veiðst í þessari veiðiferð. Hvort þeir veiddust í net, háf eða á annan hátt ætti Ívar að upplýsa um, en gerir ekki og hvort þeir voru 16 eða önnur tala ætti hann einnig að greina frá úr því hann er að véfengja frásögnina.

Loks er rétt að minna á að bæði Hafrannsóknarstofnun og Fiskistofa hafa neitað afskiptum af þessari veiðiferð. Ívar minnist ekkert á það.

-k

DEILA