Orkumikill október

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

Október hefur verið mikill gleðimánuður á Vestfjörðum. Hæð yfir Grænlandi hefur séð okkur fyrir einstökum stillum og í þessum veðurskilyrðum þrífst mannsandinn með miklum ágætum. 

Það viðraði vel á hundruð kvenna sem tóku þátt í kvennaverkfalli á Ísafirði, Patreksfirði, Drangsnesi og víðar á Vestfjörðum og einnig á þá sem brugðu undir sig menningarfætinum á Veturnóttum sem haldnar voru hátíðlegar í Ísafjarðarbæ undir lok mánaðarins.

Mánuðurinn hófst með trukki hjá sveitarstjórnarfólki á svæðinu, en þeirra helsti samstarfsvettvangur Fjórðungsþing Vestfirðinga var haldið í Bolungarvík dagana 6.-7. október. Í fréttabréfi Vestfjarðastofu má finna grein þar sem tæpt er á helstu ályktunum þaðan.

Það gustaði aðeins um okkur í umfjöllunum um Vestfirði vegna málefna laxeldis á svæðinu. Flestir eru óneitanlega slegnir yfir þeim leiðu atburðum sem átt hafa sér stað og þá sér í lagi slysasleppingu sem varð úr laxeldiskví í Patreksfirði. Þetta harmar sveitarstjórnarfólk á svæðinu sem lengi hefur kallað eftir bættu regluverki um fiskeldi og meðal annars var samþykkt ályktun á 68. Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem kveður á um aukið staðbundið eftirlit og rannsóknir í fiskeldi.

Það er nefnilega svo þegar kemur að umfjöllun um Vestfirði þá verður umræðan stundum svolítið skrýtin. Okkar ágæti fyrrverandi formaður Fjórðungssambandsins og Vestfjarðastofu Pétur Markan fór á kostum í Vikulokunum í umræðum um orkumál. Þáttastjórnendur fengu þar ekki friðardúfuna biskupsritara heldur fyrrum vestfirskan sveitarstjórnarmann sem kom beinlínis inn eins og minkur í hænsnakofa í umræður um orkumál þar sem uppleggið var að ekki væri til staðar orkuskortur í landinu. Pétur kom því ágætlega á framfæri að á Vestfjörðum er orkuskortur sem þarf að taka á.

Orkuskorturinn er raunverulegur og stendur svæðinu fyrir þrifum bæði þegar kemur að búsetu og uppbyggingu atvinnutækifæra svo ekki sé minnst á möguleika til að takast á við yfirstandandi orkuskipti. Eins og komið hefur fram í öllum þeim hillumetrum af skýrslum sem skrifaðar hafa verið um málið síðustu ár þá þarf annað hvort nýja orkuframleiðslu inn á svæðið eða tvöföldun Vesturlínu strax.  Til að hægt sé að virkja á svæðinu þarf ákvarðanir ríkisvaldsins því til að nýta þá kosti sem eru í nýtingarflokki rammaáætlunar og þá þarf til breytingar á tengigjöldum til að hægt sé að fara af stað.  

Skýrt þarf að vera að allar ákvarðanir tengdar orkumálum á Vestfjörðum eru nú á hendi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur til að ná að uppfylla samþykkt Alþingis frá árinu 2018 um að setja Vestfirði í forgang til að ná markmiðum um hringtengingu raforku á Vestfjörðum (n-1). Í sömu ályktun frá árinu 2018 voru Suðurnes og Eyjafjarðarsvæðið jafnframt sett í forgang. Lausnir á málefnum þessara svæða eru nú í sjónmáli en enn bíða Vestfirðir viðunandi lausna.

Eins og sést í fréttabréfinu var starfsfólk Vestfjarðastofu út um allar koppagrundir og sóttu ýmsar ráðstefnur og fundi, eins og Arctic Circle. Markaðsstofan var ásamt ferðaþjónum á Vestfjörðum á ferðakaupstefnunni Vestnorden og fulltrúar okkar voru á Lagarlífi ásamt fjölmörgum fulltrúum fiskeldisfyrirtækja.

Margt afar jákvætt hefur átt sér stað í mánuðinum og ber þar hæst samþykkt íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum um sameiningu Tálkafjarðarhrepps og Vesturbyggðar og ný og glæsileg brú yfir Þorskafjörð sem tekin var í notkun við hátíðlega athöfn þann 25. október.

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,

framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

DEILA