Guðmundur Fertram: viðskiptamaður ársins 2023

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, var útnefndur viðskiptamaður ársins 2023 á Hátíðarkvöldi Þjóðmála síðastliðinn fimmtudag auk þess sem risasala á fyrirtækinu til alþjóðlega heilbrigðisrisans Coloplast fyrir jafnvirði um 180 milljarða króna var valin viðskipti ársins.

Þetta kemur fram á vef Viðskiptablaðsins í gær.

Í rökstuðningi fyrir valinu var meðal annars nefnt að persónueiginleikar Guðmundar Fertrams, og sú gæfa hans að velja með sér gott fólk til starfa, hafi reynst grunnurinn að því að búa til fyrirtæki utan um þá hugmynd að hægt væri að gera yfir milljón króna verðmæti úr einu þorskroði – fiskafurð sem áður var talin einskis virði og fleygt.

Viðskiptablaðið segir að Guðmundur Fertram sé maðurinn á bakvið ævintýralegan vöxt Kerecis sem færði íslenskum fjárfestum gríðarlega ávöxtun við sölu á félaginu fyrr í sumar. 

Þá segir: „Guðmundur Fertram hefur sýnt fádæma elju og útsjónarsemi við að byggja upp líftæknifyrirtæki, nánast úr engu, sem á skömmum tíma er komið í forystu á sínum markaði á heimsvísu. Hann hafði til að bera framsýni við sölu á Kerecis, í einni stærstu yfirtöku Íslandssögunnar, sem er líkleg til að efla og stækka félagið enn frekar á alþjóðamörkuðum.“

Viðskiptaverðlaunin voru veitt á Hátíðarkvöldi Þjóðmála og fór fram fimmtudaginn 16. nóvember, á degi íslenskrar tungu. Var þetta í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin. 

Það var jafnframt samdóma álit dómnefndar Þjóðmála að útnefna söluna á Kerecis til Coloplast fyrir 1,3 milljarða Bandaríkjadala, allt greitt í reiðufé, sem viðskipti ársins 2023 – en þau setja ný viðmið í íslenskri viðskiptasögu.

DEILA