Bolungavík: stærsta innviðauppbygging í 40 ár

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að vel gangi við byggingu nýju vatnsveitunnar í Hlíðardal í Bolungavík. Lokið er steypu á botnplötum og hafin uppsláttur fyrir veggi vatnstanksins.

Kostnaðaráætlun fyrir veituna er nærri 300 m.kr. og hefur kaupstaðurinn fengið tvo styrki úr Fiskeldissjóði samtals um 60 m.kr. til framkvæmdanna. Jón Páll segir að sótt verði áfram um styrk úr sjóðnum enda er nýtt laxasláturhús á Brjótnum og vatnsþörf þess stór ástæða framkvæmdanna.

Vatns­veit­an nýja á að leysa af hólmi nú­ver­andi vatns­veitu sem bygg­ir á hreinsuðu og geisluðu yf­ir­borðsvatni. Verður geislatækið fært að nýju vatnsveitunni sem fær stóran hluta af vatni sínu úr borholum þannig að bylting verður í vatnsmálu Bolvíkinga.

Auk laxasláturhússins eru í Bolungavík mjólkurvinnsla Örnu og frystihús Jakobs Valgeirs ehf og á næsta ári hefst uppbygging á nýju íbúðarhverfi í bænum.

Jón Páll Hreinsson segir að um sé að ræða stærstu innviðaframkvæmd í bænum í 40 ár. Hann vonast til þess að uppsteypu ljúki fyrir áramót og að hægt verði að taka nýju vatnsveituna í notkun á næsta ári.

Nýi tankurinn mun taka um 2,7 milljónir lítra af vatni eða 2.675 rúmmetra sem á að anna núverandi þörf og geta bætt við 30-35%.

Frá Hlíðardal. Framkvæmdir við nýja vatnstankinn. Myndir: aðsendar.

default
DEILA