Ríkið sparar í kaupum á raforku

Með sameiginlegum örútboðum á raforku í gegnum Ríkiskaup hafa stofnanir fengið um 35% afslátt frá almennum töxtum.

Þetta jafngildir því að um 187 milljónir króna sparist á ári með sameiginlegum innkaupum, í stað þess að hver og ein stofnun sjá um sín raforkukaup. Síðustu fjögur árin hafa verið gerð örútboð fyrir allar stofnanir í A-hluta ríkisins og sparnaðurinn því hátt í milljarður króna.

Séu aðrir opinberir aðilar, sem einnig hafa tekið þátt í örútboðunum, svo sem sveitarfélög, taldir með nemur sparnaðurinn síðustu fjögur árin um 2 milljörðum króna.

Sameiginlegum útboðum á raforku var fyrst komið á árið 2016 og tóku þá um 80 stofnanir þátt. Síðustu fjögur árin hafa verið gerð örútboð fyrir allar A-hluta stofnanir ríkisins, sem eru um 160 talsins. Í síðasta útboði var gerð krafa um að upprunni orkunnar flokkaðist sem grænn í takti við stefnu ríkisins um sjálfbær innkaup. Með fleiri slíkum sameiginlegum innkaupaverkefnum er markmið nýrra fjárlaga að auka heildarhagkvæmni í rekstri ríkisins ásamt aðhaldsaðgerðum á við lækkun ferðakostnaðar og lækkun á launalið.

Nýr rammasamningur um raforku verður auglýstur á næstu vikum og í framhaldinu verður raforka keypt sameiginlega fyrir allar a hluta stofnanir með örútboði.

DEILA