Reykhólar: ljósleiðaravæðing fyrir veturinn

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur samþykkt að ljósleiðaravæða þorpið á Reykhólum. Auglýst var í sumar eftir áhugasömum aðilum til verksins.

Gert er ráð fyrir að tengja öll heimili á Reykhólum. Og að öllum þjónustuveitum verði heimilað að bjóða þjónustu sína á ljósleiðarakerfinu gegn gjaldi. ætlunin er að koma á ljósleiðaratengingu eða annarri a.m.k. 100Mb/s þráðbundinni netþjónustu á Reykhólum.

Engar umsóknir bárust. Sveitarstjórnin bókaði þá að ljóst væri að markaðsforsendur væru brostnar, sem heimilaði sveitarfélaginu að stíga inn í verkefnið og leggja ljósleiðara í þorpið á Reykhólum.

Ingibjörg Erlingsdóttir, sveitarstjóri sagði í gær í svörum við fyrirspurn Bæjarins besta að unnið hefði verið að undirbúningi. „Það er búið að teikna og kostnaðargreina, eigum eftir að hnýta örfá atriði og þá getum við farið í verkefnið. Stendur helst á tímaskorti. Vorum að ráða verkefnastjóra í framkvæmdir og uppbyggingu, hann tók til starfa í dag.“

Kvaðst hún vonast til þess að verkið yrði unnið núna og því lokið í haust.

DEILA