Laxeldi: lítil breyting á afstöðu skv könnun Gallup

Birt hefur verið ný könnun Gallup, sem gerð var fyrir NASF, Verndarsjóði Villtra Laxastofna, á afstöðu landsmanna til laxeldis í sjó. Síðast var gerð könnun í febrúar sl. Litlar breytingar hafa orðið síðan þá. Nú eru 63,5% svarenda neikvæðir í garð sjókvíaeldis en voru 61,4% í febrúar.

Einnig var spurt hvort banna ætti sjókvíaeldi í opnum kvíum og voru 57,5% á þeirri skoðun en í febrúar var hlutfallið 52,4%. Þeir sem vildu leyfa eldið voru 20,8% en höfðu verið 22,8% í febrúar.

Könnunin var netkönnun, úrtakið 1.696 manns. Svör bárust frá 857 eða 50,5%. Af þeim tóku 67 ekki afstöðu til spurningarinnar um það hversu jákvæður eða neikvæður viðkomandi væri til sjókvíaeldis og voru svörin 790.

Hætta á blöndun við villta laxastofna var gefin upp sem helsta ástæða þess að vera neikvæður gagnvart eldinu og svo að hætta væri á að laxinn slyppi úr kvíunum.

Til spurningarinnar um bann við eldi tóku 682 afstöðu af þeim 857 sem svöruðu.

Mestur stuðningur við eldi reyndist í Norðvesturkjördæmi 37% en þar voru 49% sem vildu banna. Næst kom Suðurkjördæmi.

DEILA