Fimmtudagur 24. apríl 2025

Arctic Fish og Háafell semja um slátrun

Auglýsing

Arctic Fish og Háafell hafa samið um að Arctic Fish muni slátra öllum laxi fyrir Háafell næstu þrjú árin. Framleiðslan mun fara fram í Drimlu, nýrri laxavinnslu Arctic Fish í Bolungarvík sem tekin var í notkun nú í sumar. Sömuleiðis mun brunnbátur á vegum Arctic Fish, Nova Trans flytja lifandi lax í Drimlu.

Á morgun verður fyrsta laxi úr framleiðslu Háafells í Ísafjarðardjúpi slátrað. Er það um leið fyrsti laxinn sem slátrað er úr Djúpinu en fyrstu laxaseiðin fór í sjó þar vorið 2022.  Laxavinnslan Drimla annar um 100 tonna framleiðslu á dag og nú fara um 450 tonn á viku frá vinnslunni. Háafell gerir ráð fyrir að slátra um 2.000 tonnum í haust og vetur en heildarframleiðsla í húsinu verður um 20.000 tonn á næsta ári sem samsvarar um 20 milljarða útflutningsverðmætum. Fiskurinn fer að mestu ferskur á erlenda markaði en hluti framleiðslunnar er frystur í vinnslu Jakobs Valgeirs í Bolungarvík. Lang stærsti hluti framleiðslunnar er fluttur sjóleiðina á erlenda markaði til að lágmarka kolefnisspor framleiðslunnar. Um 30 manns vinna í Drimlu bæði tæknifólk og í vinnslu.

„Það er ánægjulegt fyrir okkur að geta nýtt okkur laxavinnslu Arctic Fish hér í Ísafjarðardjúpi. Við hefjum ferlið innst í Djúpinu á Nauteyri í seiðaeldinu, ölum laxinn upp í miðju Djúpinu og uppskerum svo í Bolungarvík, þannig að framleiðsla okkar er öll í Ísafjarðardjúpi. Vinnslan Bolungarvík er janframt eins sú tæknivæddasta í heimi með nýjasta mögulega búnað svo sem ofurkælingartönkum sem á að tryggja gæði vörunnar.“ segir Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells.

„Með því að Háafell komi með framleiðslu sína til okkar verður framleiðslan í vinnslunni stöðugri og hagkvæmari fyrir báða aðila. Við höfum lagt í mikla fjárfestingu í þessu húsi sem nýtist nú fleirum. Það styrkir báða aðila í samkeppni á erlendum mörkuðum“. Segir Kristján Rúnar Kristjánsson, framkvæmdastjóri laxavinnslunnar Drimla.

Auglýsing

Auglýsing
Auglýsing

Nýtt á BB

Auglýsing

Fleiri fréttir