Vestfirskir skógarbændur farnir að huga að umhirðu skóga

Aaron með mælistöngina og Hraundís skráir mæliniðurstöður í skóginum að Kvíindisfelli. Ljósmynd: Valdimar Reynisson

Víða á Vestfjörðum eru að vaxa upp fallegir skógar og nú er svo komið að sumir þeirra þurfa umhirðu við. Dæmi um slíkan skóg er á Kvígindisfelli við Tálknafjörð. Þar hittust skógræktarráðgjafar af Vestfjörðum og Vesturlandi miðvikudaginn 20. september til að meta umhirðuþörf skógarins. 

Það er ekki síður mikil gróska í vestfirskum skógum en annars staðar á landinu. Sáum við á leiðinni marga fallega skógarreiti. Skógarbóndinn á Kvígindisfelli, Lilja Magnúsdóttir, var stödd á fundi fyrir sunnan og gat því ekki verið með okkur við þessa úttekt.

Metinn var reitur sem gróðursettur var í júní árið 2002. Þá voru sett niður 4.500 plöntur af sitkabastarði og 1.000 af alaskaösp en jafnframt 110 steinbjörkum. Við úttektina nú voru mældir fjórir 100 mmælifletir. Mælt var þvermál á öllum trjám, metin gæði trjánna og þéttleiki mældur.

Reiturinn reyndist nokkuð þéttur en þó voru neðstu greinar ekki farnar að drepast. Trén litu í flestum tilfellum vel út og þarna er að vaxa upp efnilegur viðarnytjareitur. Þó sást munur á frjósemi jarðvegs vel við þessa könnun. Í reitnum voru blettir þar sem trén litu út fyrir að búa við nokkurn skort á næringarefnum. Þar var greinilega rýrari jarðvegur.

Nokkuð var um skemmd tré af völdum veðurs, toppar höfðu brotnað og margir nýir toppar myndast.

Samkvæmt niðurstöðum og umræðum milli ráðgjafa á staðnum er líklegasta niðurstaðan að þarna verði ráðlögð svokölluð tiltekt, þ.e.a.s. að farið verði um reitinn og skemmd tré og undirmálstré verði fjarlægð, auk þess að fjarlægja svokallaða varga. Það eru stór og mjög greinamikil tré sem taka mikið pláss í skóginum og skila litlum timburgæðum vegna greinanna.

Aðgerð sem þessi, að fara í tiltekt, skilar því að í reitnum verður aukið rými fyrir eftirstandandi tré og grisjun verður auðveldari í framhaldinu. Vonumst við til að fleiri vestfirskir skógarbændur fari að huga að umhirðumálum í sínum skógum.

Ráðgjafarnir sem tóku þátt í þessari úttekt eru Kristján Jónsson Vestfjörðum og Aaron Zachary Shearer, Hraundís Guðmundsdóttir og Valdimar Reynisson Vesturlandi.

Af vefsíðunni skogur.is

DEILA