Suðureyri: Túngata verði vistgata og einstefna tekin upp

Bæjarráð og umhverfis- og framkvæmdanefnd hafa í sumar rætt hvernig megi auka umferðaröryggi við grunnskólann á Suðureyri. Aflað var umsagnar  skólastjórnenda leik- og grunnskóla á Suðureyri um tillögu Hverfisráðs Suðureyrar að gera Túngötu að Vistgötu með einstefnugötu þannig að það myndist nokkurs konar hringakstur við skólann.

Tóku þeir vel í tillöguna og töldu að Túngatan eigi að vera Vistgata frá Túngötu 6 og ná að leikskólanum.

Þannig væru leikskólinn og grunnskólinn betur tengdir saman sem eina heild og myndað öruggt svæði á milli þessara skóla.

Í minnisblaði sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs kemur fram að um vistgötu beri að aka hægt og eigi hraðar en 15 km/klst.
Umferð gangandi og akandi er jafnvíg, og er þannig heimilt að dveljast og vera að leik á vistgötu. Ökumaður skal sýna gangandi vegfaranda sérstaka tillitssemi og víkja fyrir honum. Vistgata skal sérstaklega merkt sem vistgata og ökutæki má ekki leggja í vistgötu nema á merktum stæðum.

Bæjarráðið leggur til við bæjarstjórn að samþykkja að gera Túngötu að vistgötu og að sett verði upp einstefna við vestari enda Túngötu. 

DEILA