Ný tegund sæsnigils fannst í Breiðafirði. Ekki er vitað hvernig þessi tegund sæsnigils hefur borist í innanverðan Breiðafjörð né hvort hún finnst víðar við Ísland.
Hér er um stórmerkilegan fund að ræða sem áhugavert verður að rannsaka nánar.
Svanhildur Egilsdóttir starfsmaður Hafrannsóknastofnunar sem hefur lengi haft áhuga á lífríki fjörunnar og stundað rannsóknir í fjörum um árabil, fann nýverið sæsnigil sem ekki hefur áður fundist við Ísland.
Svanhildur hefur reglulega heimsótt sömu fjöruna við Breiðafjörð, skjólsæla fjöru þar sem hægt er að ganga um leirur þegar lágsjávað er.
Á leirunum er mikið fuglalíf og eru þær viðkomustaður fugla sem koma á vorin og haustin á leið sinni milli vetrarstöðva í Vestur Evrópu og varpstöðva á Grænlandi og íshafseyjum Kanada. Fugla eins og margæsa og rauðbrystinga.
Fyrir um tveimur árum tók Svanhildur eftir ílöngum hlaupkenndum eggjasekkjum á leirunum. Eggjasekkirnir eru um 3 cm á lengd og 1 cm á breidd og innan í þeim er þráðlaga eggjaspírall.
Eftir að hafa spurst fyrir meðal líffræðinga var ákveðið að safna sýnum og bera undir sérfræðing í flokkunarfræði sjávarhryggleysingja á Hafrannsóknastofnun, Laure de Montety. Athugun á eggjasekkjunum benti til þess að hugsanlega væri um að ræða egg sæsnigils af ættbálkinum Cephalaspidea. Ein tegund þessa ættbálks, Haminella solitaria, hefur verið að finnast á nýjum stöðum síðastliðin ár. Tegundin fannst fyrst í Evrópu sumarið 2016 við strendur Þýskalands og síðar í Danmörku 2020. Áður var hún þekkt í vestanverðu Atlantshafi og Grænhöfðaeyjum.
Eftir að hafa komist að þessu var tekin ákvörðun um að fara og reyna að finna eiganda eggjanna. Sú ferð gekk vel, nokkrum sniglum, dökkbrúnum og næstum svörtum að lit, var safnað og þeir voru myndaðir.
Sniglar að makast sáust og einnig sáust sniglar fastir við eggjasekki. Sniglar þessir hafa þróast þannig að mjög viðkvæm skelin er innan í dýrinu, baklægt á afturenda dýrsins. Sniglarnir eru dökkbrúnir að lit (nánast svartir, að hámarki um 2 cm að lengd, en dragast saman við truflun. Þeir eru fljótir að grafa sig niður í setið og hverfa verði þeir hreyfingar varir.
Meira um þetta á hafogvatn.is