Lengjudeildin: Vestri getur tryggt sér sæti í umspili í dag

Karlalið Vestra sækir Ægi í Þorlákshöfn heim í dag í Lengjudeildinni og getur með sigri tryggt sér sæti i umspili fjögurra liða um eitt laust sæti í Bestu deildinni. Vegna veðurs hefur leikurinn verrið færður frá Þorlákshöfn og verður spilaður innanhúss í Kórunum í Kópavoginum. Leikurinn hefst kl 15.

Þrír leikir hafa þegar farið fram í 20. umferð deildarinnar og lögðust sum úrslitin með vonum Vestra um sæti í umspilinu. Á fimmtudaginn vann Þróttur stórsigur á Grindavík 5:0 sem er í 6. sæti deildarinnar. Fyrir vikið getur Grindavík ekki fengið fleiri stig en 31 í deildinni og þá með því að vinna báða leikina sem eftir eru. Vestri er hins vegar með 30 stig og betri markamun. Jafntefli myndi því svo gott sem gera það að verkum að Vestri yrði fyrir ofan Grindavík og þá eru tveir leikir eftir þar sem Vestri gæti fengið 6 stig.

Þá vann Selfoss í gær lið Gróttu 1:0 sem varð til þess að Grótta verður alltaf fyrir neðan Vestra, jafnvel þótt liðið vinni báða leikina sem eftir eru.

Takist Vestra að vinna Ægi, sem er í neðsta sæti deildarinnar og þegar fallið, er sæti í umspillinu tryggt. Þá verður Vestri komið með 33 stig. Að vísu gæti Þór Akureyri náð jafnmörgum stigum með því að vinna þá þrjá leiki sem liðið á eftir en markatala Þórs er 17 mörkum lakari en Vestra og engar líkur á því að vinna þann mun upp.

Um síðustu helgi vann Vestri örugglega 3:1 lið Fjölnis, sem er í 3. sæti deildarinnar og öruggt með sæti í umspilinu. Vestradrengir sýndi góðan leik og sterkt lið Fjölnis var í vandræðum allan leikinn.

Í tveimur síðustu leikjunum mætir Vestri fyrst á Ísafirði Þrótti Reykjavík og lokaleikurinn er gegn Selfossi. Það verða örugglega erfiðir leikir þar sem bæði liðin eru í harðri fallbaráttu og þurfa að sækja stig.

Vestri er í 4. sæti deildarinnar. Efsta liðið fer beint upp í Bestu deildina og liðin í 2. – 5. sæti spila útsláttarkeppni um eitt laust sæti.

DEILA