Kristinn Jónasson hlýtur náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti

Kristinn Jónasson er frá Þingeyri

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, tilkynnti á Degi íslenskrar náttúru, að Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsnesbæjar hljóti Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Er þetta í fjórtánda sinn sem náttúruverndarviðurkenningin er afhent.

Kristinn hefur  verið bæjarstjóri Snæfellsnesbæjar frá árinu 1998 og var virkur í baráttunni fyrir stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi, m.a. með vinnu sinni í starfshópi um stofnun þjóðgarðsins. Snæfellsjökulsþjóðgarður var stofnaður árið 2001 til að vernda bæði sérstæða náttúru svæðisins og merkilegar sögulegar minjar, ekki síst í tengslum við sjósókn, en hann er fyrsti þjóðgarður landsins sem nær að sjó. Kristinn hefur verið ötull við að vekja Snæfellsjökulsþjóðgarð til vegs og virðingar og bent á þau tækifæri sem tilkoma þjóðgarðsins hefur falið í sér. Meðal áherslumála Kristins er að auðvelda eigi fólki að ferðast um svæðið og kynnast því.

Í sveitarstjóratíð Kristins hefur Snæfellsbær, ásamt öðrum sveitarfélögum á Nesinu, komið að gerð svæðisskipulags Snæfellsness, verið aðili að Svæðisgarði Snæfellsness og fengið um árabil óháða Earth Check umhverfisvottun fyrir sjálfbær samfélög. Kristinn hefur einnig verið ötull talsmaður þess að landsvæði Svæðisgarðsins Snæfellsness komist á skrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) yfir svonefnd MAB eða Maður og lífhvolfssvæði (e. Mand and Biosphere) og er sú vinna í gangi. MAB miðar að því að styrkja tengsl milli fólks og umhverfis á grunni vísindalegrar þekkingar. Undirritaðar viljayfirlýsingar liggja fyrir frá sveitarfélögunum fjórum á Snæfellsnesi og Snæfellsjökulsþjóðgarði, og er margvíslegur ávinningur af verkefninu fyrir nýsköpun og byggðaþróun á svæðinu.

Auk framlags til náttúruverndar á Snæfellsnesi hefur hann einnig talað fyrir því að auka eigi vernd viðkvæmrar náttúru vítt og breitt um landið, s.s. á hálendi Íslands.

DEILA