Ísafjörður: vill stærri hlut af fiskeldispeningum

Háafell ehf hefur hafið fiskeldi í Vigurál í Ísafjarðardjúpi. Fiskeldisgjaldið gefur miklar tekjur til hins opinbera.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur tekið fyrir tillögur Matvælaráðuneytisins um breytingar á Fiskeldissjóði. Setur ráðuneytið fram þær hugmyndir að fjármagnið sem nú rennur í sjóðinn, sem er þriðjungur fiskeldisgjaldsins, verði skipt á milli svonefndra fiskeldissveitarfélaga.

Í fyrsta lagi yrði fjármagninu skipt milli landshluta í samræmi við framleiðslumagn. Síðan yrði skipt hlut hvers landshluta milli sveitarfélaga samkvæmt fjölda starfsmanna í sjókvíaeldi í hverju þeirra.

Samkvæmt þessu myndi fjármagnið skiptast milli Vestfjarða og Austfjarða. Miðað við framleiðslu síðasta árs yrðu það á Vestfjörðum fimm sveitarfélög sem fengju hlutdeild, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur. Á Austurlandi yrðu það tvö sveitarfélög sem fengju framlög, Múlaþing og Fjarðabyggð.

Á síðasta ári voru það 248 m.kr. sem Fiskeldissjóður fékk og skiptist það þannig að til Vestfjarða myndi renna skv. þessum tillögum 170. mkr. Fiskeldisgjaldið mun hækka verulega á næstu árum og þá er áformað að hækkað það sérstaklega á næsta ári um 43% svo tekjurnar munu að öllu óbreyttu verða verulega hærri en þær voru í fyrra.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar telur reiknireglu skv. greinargerð ráðuneytisins of einfalda fyrir flókna virðiskeðju fiskeldis. Vill bæjarráðið taka tillit til afleiddra starfa, enda sé það óhjákvæmilegt fyrir atvinnugreinina að hafa stuðning af tengdri starfsemi.

Samkvæmt tillögum ráðuneytisins fengi Ísafjarðarbær 18% af hlut Vestfjarða í fiskeldisgjaldinu.

Bæjarráð Bolungavíkur hefur líka fjallað um tillögur Matvælarráðuneytisins. Í bókun þess er lögð áhersla á þrennt. Í fyrsta lagi að leggja Fiskeldissjóð niður sem samkeppnissjóð og hætta úthlutun á grundvelli umsókna. Í öðru lagi að stórauka það hlutfall fiskeldisgjalds sem rennur til sveitarfélagana. Í þriðja lagi þurfi úthlutun úr Fiskeldissjóði að endurspegla fjárfestingarþörf vegna innviða tengdu fiskeldisstarfsemi.

DEILA