Ísafjörður: meta kostnað við göngustíg á fyrirstöðugarði við Norðurtanga

Frá framkvæmdum við Norðurtanga. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.
Frá framkvæmdum við Norðurtanga. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fól á fundi sínum á mánudaginn bæjarstjóra að taka saman kostnað við að gera göngustíg á nýjan fyrirstöðugarð við Norðurtanga, mögulega lýsingu og bekki.

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs hefur lagt til að haldin verði samkeppni um hugmyndir og hönnun að áningarstað á enda fyrirstöðugarðs við Norðurtanga. Keppnin verði haldin öðru hvoru megin við áramótin.

Fjórar fastanefndir bæjarins hafa tekið málið fyrir og gefið umsögn.

Í tillögunni segir að áningarstaður verði við enda garðsins og að þar megi hugsa sér „listaverk eða minnismerki auk bekkja eða annarra götugagna. Skoða má hvort aðgengi að fjörunni megi tvinna við áningarstaðinn, eftir atvikum í tengslum við sjósund. Leitast verði við að líta til sögunnar, en við garðinn var bryggja og þar er enn uppsátur, en þó er ekki skilyrði að listaverkið hafi skírskotun í sjósókn.“

Uppfært kl 10:18.

Gylfi Ólafsson segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um keppnina sjálfa, heldur var talin þörf á að skoða þessa kostnaðarliði sem nefndir eru í fundargerð áður en endanleg ákvörðun yrði tekin, enda þurfi þeir ekki beinlínis að vera hluti af áningarstaðnum.

„Það er margt sem keppir um fjármuni sveitarfélagsins. Einnig er ekki augljóst hvaða snið á samkeppni myndi henta best. Allir eru sammála um að stór opin samkeppni með stórri dómnefnd sé úr takti við umfang verkefnisins.“

DEILA