Bleika slaufan 2023 er komin í sölu og hefur hún sjaldan verði bleikari og fegurri en í ár. Slaufan er úr bleikum steinum sem eru misjafnir í lögun sem er vísun í það hvað mannfólkið er ólíkt.
Bleika slaufan í ár er hönnið af gullsmíðameisturunum Lovísu Halldórsdóttur Olesen (by lovisa) og Unni Eir Björnsdóttur ( EIR eftir Unni Eir). Hönnun slaufunnar er innblásin af samstöðu sem minnir okkur á að þótt við séum ólík stöndum við saman þegar erfiðleikar steðja að og myndum eina heild.
„Steinarnir í slaufunni eru ólíkir að forminu til að tákna þannig margbreytileika okkar og heild þeirra táknar þéttan stuðning samfélagsins. Sterkur bleikur litur einkennir slaufuna í ár, en hann minnir á samstöðuna sem er fólgin í því þegar samfélagið skrúðist bleikum búning til að styðja við baráttuna gegn krabbameinum hjá konum,“ segir í lýsingu hönnuða á slaufunni.
Frá árinu 2007 hafa sérhannaðar slaufur verið seldar til styrktar átakinu. Í samvinnu við Félag íslenskra gullsmiða hefur verið haldin samkeppni þar sem valið er úr þeim tillögum sem berast. Bleika slaufan er seld hjá 300 söluaðilum um land allt sem selja slaufuna án endurgjalds svo að allur ágóði rennur til átaksins. Sölutímabilið er 3 vikur í upphafi október hvers árs en á því tímabili er sala slaufunnar einnig án virðisaukaskatts.
Þeir fjármunir sem safnast í átakinu renna ár hvert til þess þáttar sem átakið snýst um, en einnig tilvísindastarfs, rannsókna, fræðslu, forvarna og til ráðgjafar og stuðnings. Einnig hefur verið safnað fyrir tækjum til krabbameinsleitar á vegum Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins. Þetta kemur fram á heimasíðu krabbameinsfélagsins.
Í netverslun Krabbameinsfélagsins er hægt að kaupa Bleiku slaufuna og þar er einnig fjölbreytt og skemmtilegt úrval gjafavara. Allur ágóði af sölu vara rennur til Krabbameinsfélagsins.