Arctic Fish: skilningur á opinberri rannsókn

Sten Ove Tveiten, framkvæmdastjóri Arctic Fish.

Vegna fréttatilkynningar frá Matvælastofnun, er varðar opinbera rannsókn á götum sem urðu á sjókvíum Arctic Fish í Kvígindisdal í Patreksfirði þann 21. ágúst hefur fyrirtækið sent frá sér fréttatilkynningu. Þar segir að fyrirtækið líti málið mjög alvarlegum augum og hafi það unnið að rannsókn málsins í nánu samstarfi með Matvælastofnun og Fiskistofu.

Stjórnendur Arctic Fish munu vinna áfram að rannsókn málsins með þar til bærum yfirvöldum. Fyrirtækið hefur einnig unnið að innri rannsókn á atvikinu og hefur nú þegar afhent þau gögn til yfirvalda.

„Okkur þykir mjög miður að eldislaxar í okkar eigu hafi strokið úr sjókvíunum í Patreksfirði. Við höfum unnið dag og nótt að því að lágmarka áhrif stroksins og fjöldi starfsmanna fyrirtækisins hefur komið að innri rannsókn á atvikinu. Við sýnum því jafnframt skilning að Matvælastofnun hefur óskað eftir opinberri rannsókn á tilkomu gatanna í sjókvíunum í Patreksfirði, enda er það sá farvegur sem lögin mæla fyrir um að málið fari í. Við drögum lærdóm af því sem átti sér stað og vinnum áfram að því að koma í veg fyrir strok úr kvíum, eftir fremsta megni.” segir Stein Ove Tveiten, framkvæmdastjóri.

DEILA